Hönnun Íslensku hjónin Snæbjörn Stefánsson og Róshildur Jónsdóttir eru meðal þeirra Íslendinga sem eiga verk á sýningunni í Dubai.
Hönnun Íslensku hjónin Snæbjörn Stefánsson og Róshildur Jónsdóttir eru meðal þeirra Íslendinga sem eiga verk á sýningunni í Dubai. — Morgunblaðið/Ásdís
Nú stendur yfir hönnunarsýning í Dubai sem nefnist Downtown Design Dubai og þar eiga nokkrir Íslendingar verk undir merkjum HönnunarMars. Fyrirtækin sem boðin var þátttaka eru Agustav, 1+1+1 og North Limited.

Nú stendur yfir hönnunarsýning í Dubai sem nefnist Downtown Design Dubai og þar eiga nokkrir Íslendingar verk undir merkjum HönnunarMars. Fyrirtækin sem boðin var þátttaka eru Agustav, 1+1+1 og North Limited.

Keramík, speglar og borð

Gústav Jóhannsson og Ágústa Magnúsdóttir eiga hönnunarstúdíóið Agustav sem sérhæfir sig í einföldum, endingargóðum húsgögnum úr timbri. Á sýningunni kynna þau borð, kolla og bókasnaga. North Limited er hönnunarteymi þriggja íslenskra hönnuða, Sigríðar Hjaltdal Pálsdóttur, Þórunnar Hannesdóttur og Guðrúnar Valdimarsdóttur, sem hanna endingargóðar vörur fyrir heimilið innblásnar af mínimalískum línum. North Limited sýnir keramík, spegla og staflanleg borð.

1+1+1 er norrænt samstarf íslensku hönnuðanna Róshildar Jónsdóttur og Snæbjörns Stefánssonar og finnsku hönnuðanna Klaus og Elinu Aalto auk sænska hönnuðarins Petru Lilju, en þar leggur hver til sitt framlag og heildarútkoman verður því óvænt og fjölbreytileg. 1+1+1 sýnir spegla og kertastjaka á sýningunni.

Aðsókn góð á íslenska básinn

Sara Jónsdóttir og Halla Helgadóttir frá Hönnunarmiðstöðinni eru staddar í Dubai og segja að íslenski básinn veki mikla athygli. „Íslensku vörurnar hafa hlotið sérlega góðar viðtökur og hefur aðsókn á básinn verið vonum framar. Nálgun íslensku hönnuðanna þykir sérstök og öðruvísi og ljóst að gesti sýningarinnar þyrstir einmitt í annað en þeir eiga að venjast,“ segja þær stöllur. „Fyrir íslensku fyrirtækin er þetta verulega gott tækifæri til að mynda tengsl við kaupendur, framleiðendur og blaðamenn, markaðssetja vörumerkin og fá tækifæri til að hljóta alþjóðlega athygli. Fyrir HönnunarMars er þetta tækifæri og viðurkenning að vera valinn með öðrum hönnunarhátíðum til að sýna á svona stórum og alþjóðlegum viðburði.“