Heiða Ásgeirsdóttir er einyrki á Ljótarstöðum sem eru efsti bær í Skaftártungu. Jafnframt því að sinna fimm hundruð fjár hefur hún barist fyrir tilveru sinni og sveitarinnar fyrir austan – varið landið – svo öllu verði ekki fórnað fyrir fáein megavött; gljúfri, besta beitarlandinu – þar sem fyrst grær á vorin. Steinunn Sigurðardóttir ritaði sögu Heiðu í bókinni Heiða - fjalldalabóndinn .
Fengitíminn
Þessi ferskeytla um lambhrútinn kom þannig til að eldri herramaður ljóðaði á mig bónorðsvísu á hagyrðingamóti og fékk þetta á móti:
Ég var ekki í dag út úr vöggunni að skríða.
Hef verið í búskap um sinn.
Sá léttasti á fóðrum og liprasti að ríða
er lambhrúturinn.
Hrútar eru afskaplega leiðinlegar skepnur. Ég hef þurft að minnka hrútakróna oftar en einu sinni þegar nær dregur fengitíma svo þeir nái ekki eins löngum tilhlaupum í slagsmálunum, þessir fávitar.
Hrútar verða yfirleitt ekki eldri en þrevetra. Þeir eiga svo mörg afkvæmi og eru þá fullreyndir. Það er betra að vera með yngri hrúta, sem eiga þá að vera föðurbetrungar. Ærnar verða miklu eldri en hrútarnir, níu ára gamlar eða svo.
Spakir hrútar eru alveg sérstakt leiðindadæmi. Þeir verða svakalega frekir. Vilja láta strjúka sér. Og rjúka svo í mann til að fá blíðu. Ógurlegir vitleysingar.
Svo er það djöfullegt þegar maður rétt hangir í sjötíu kílóum, í vinnugallanum og skónum, að rýja níðsterka hundrað kílóa hrúta... sleppur ef þeir eru þægir, en ég hef skutlast út í vegg bara ef þeir ákveða að rétta úr hálsinum og steinlegið í gólfinu, ef þeim dettur í hug að standa upp óforvarandis. Ég svitna sjaldan neitt að ráði við rúning... en það hefur oft verið hægt að vinda fötin mín eftir að hafa rúið nokkra fullorðna hrúta.
Ég á eina gamla hrútarúningsvísu sem er svona:
Þessir hrútar þoldu tap,
þeir misstu allir hárin.
Berst við að lægja brjálað skap
bóndinn, og sleikir sárin.
Ég ræð ekki við hrútana. Þeir eru sterkari en ég. Það sem ég segi um þá er best að skoða í ljósi þess.
Nú er ég loksins búin að læra að gamlar konur eiga ekki að tjónka við hrúta ef þar til gert yngra fólk er innan seilingar. Í síðustu réttum sagði ég við hann Ármann systurson minn: Sjáðu Ármann minn, þarna er hrútur! Og ljúfmennið sem hann er fór af stað.
Búskapur hefst
Þegar ég byrjaði að byggja upp á Ljótarstöðum var margt komið í niðurníðslu, búskaparhættir að mörgu leyti gamaldags. Að minnsta kosti var bæjarbragurinn ekki eins og ég vildi hafa. Ég var viðkvæm fyrir því og vildi endilega bæta úr og það hefur nú verið mitt stóra verkefni í fimmtán ár. Það sat líka í mér að Ljótarstaðir höfðu orðið fyrir leiðinlegu umtali.Ég var í öllum framkvæmdum sjálf, með margvíslegri aðstoð. Siggeir vinur minn er smiður, hann hjálpaði mér mjög mikið og kenndi mér líka. Ég hafði til dæmis aldrei notað hjólsög.
Ég sneri fjárhúsinu við sumarið 2002 og breytti fjárhúshlöðunni líka í fjárhús. Þessi stóraðgerð bætti mjög aðstöðuna til gegninga, létti okkur starfið, og var mikið hagræðingarmál. Pabbi var á móti breytingunum fyrst í stað... en hann laumaðist nú til að hrósa þeim... svona við aðra, frétti ég.
Við pabbi vorum yfirleitt ósammála um flest það sem sneri að búskapnum. Þannig að við rifumst mikið, eftir að ég varð uppkomin og fór að þora að standa fyrir máli mínu. Ég er friðsöm í eðli mínu... hef ekki gaman af rifrildi, svo þetta tók á. Þar fyrir utan var pabbi frægur fyrir að þagga alveg niður í fólki með sínu mergjaða tungutaki. Það var nú ekki alltaf fallegt orðbragðið á okkur, þegar ég yfirleitt kom upp orði... ég á það til að frjósa ef ég verð reið. Ég reyndi þá að hafa hærra en hann – sem var erfitt – maðurinn var mjög rómsterkur.
Á einhverju stigi málsins, áður en ég tók við búinu, sprakk allt í loft upp og ég tók föggur mínar... alfarin. Þau voru að rifja það upp um daginn Jónas og Droplaug í Norður-Hvammi að ég hefði verið í ham þegar ég lýsti málinu fyrir þeim. Ég átti að hafa klykkt út með þessu: „Svo las ég helvítinu lokapistilinn.“
Ég var í burtu í hálft ár. Svo fannst mér pabbi hafa sloppið of vel! Ég hafði ætlað mér að búa á Ljótarstöðum. Svo ég fór aftur heim. Mér var ekki vel tekið... en það lagaðist.
Ég líkist pabba mjög mikið í útliti. Að hugsa sér þetta – tvö alveg eins sem standa hvort framan í öðru og hnakkrífast. Bæði löng og mjó. Sama nefið. Sömu bláu augun. Taktar og hreyfingar svipað, og ekki síst talandinn og tilsvörin.
Andlega óráðsían
Hjá flestum mun að mestu líkt
þó misjafnlega þvælið.
Það er eitthvað kynnst og kíkt
og kysst og svo í bælið.
Ég geng græn að því hvað karlmönnum finnst um mig, hvort þeir eru skotnir í mér. Ég pæli ekki í því, tek ekki eftir því nema það sé sagt beint við mig. En ég er ekki ein af því ég hafi setið og grátið í vasaklút og svuntuhorn yfir skorti á vonbiðlum. Ég hef fengið allrahanda skilaboð gegnum tíðina. Menn bjóða fram sjálfa sig, syni sína... feður, hringja stundum fullir: „Vantar þig ekki vinnumann?“ „Ég get lyft böggunum.“ „Ég get gert við traktorana.“ Stundum koma bréf í pósti, skartgripir og alls konar dótarí. Best var þó þegar frændi minn sendi mér einn á biðilsbuxunum... þekkjandi frænku sína sendi hann manninn ekki með blóm og konfekt heldur með hamar og startkapla að gjöf. Ég fattaði samt ekki fyrr en löngu seinna að hann átti erindi við mig... þakkaði bara fyrir gjafirnar, sótti pabba gamla og bað hann að spjalla við þennan gest... dreif mig svo út.
Jú, ég verð vör við það að menn hafi minnimáttarkennd gagnvart mér, segi til dæmis: „Þú ert svo sjálfstæð.“ Ég hef líka heyrt eitthvað á þessa leið frá fólki sem endilega vill gefa góð ráð... að ég þurfi að gefa eftir, setja upp undirleit bambaaugu... og megi alls ekki vera svona sjálfstæð... allt að því ógnandi, því þá fái karlmennirnir minnimáttarkennd og ég nái mér aldrei í mann svoleiðis. Einmitt af því að það er jú eini tilgangurinn með lífinu...
Fyrir utan sjálfstæðisvandamálið er ég hávaxin og hefðin svo sterk fyrir því að karlmaðurinn eigi að vera hærri í loftinu. Það er barasta enginn endir á mótlætinu í þessum heimi!!
Ef mönnum stendur ógn af mér er það leiðinlegt fyrir þá... mér gæti ekki verið meira sama. Kannski er ég orðin svo teflonhúðuð að það næst ekki viðloðun.
Ég heyrði einu sinni skilgreiningu á rómantík sem féll í kramið hjá mér. Hún kemur víst austan af fjörðum. Málið afgreitt í tveimur orðum: Andleg óráðsía.