Framkvæmdir Unnið hefur verið á fullu í hverfinu á þessu ári.
Framkvæmdir Unnið hefur verið á fullu í hverfinu á þessu ári. — Morgunblaðið/Júlíus
Árið 1992 var gerður samningur milli Björgunar og Reykjavíkurborgar um uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhverfis á uppfyllingu austan athafnasvæðis Björgunar í Elliðavogi.

Árið 1992 var gerður samningur milli Björgunar og Reykjavíkurborgar um uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhverfis á uppfyllingu austan athafnasvæðis Björgunar í Elliðavogi. Fyrirtækið fékk Björn Ólafs arkitekt í París til að annast deiliskipulag og að hluta til hönnun húsa í hverfinu. Fyrstu húsin í Bryggjuhverfinu risu árið 1998.

Nú er Bryggjuhverfið byrjað að stækka á ný, en árið 2014 var ákveðið að hefja byggingu 2. áfanga þess. Byrjað var að reisa tvö fjölbýlishús í fyrra en alls verða þau átta talsins. Nikulás Úlfar Másson, byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar, segir að þegar öll húsin verði fullbyggð hafi Bryggjuhverfið stækkað um 30%.

Bryggjuhverfið mun svo stækka enn til vesturs þegar Björgun hefur flutt og landfyllingarnar verða tilbúnar.

„Hverfið hefur að ýmsu leyti liðið fyrir nálægð sína við Björgun,“ segir á heimasíðu fyrirtækisins. Íbúar í hverfinu kvörtuðu yfir því að sandur fyki af athafnasvæði fyrirtækisins í vestanáttum. Árið 2008 var ráðist í viðamiklar framkvæmdir til að afmarka betur starfsemi félagsins og íbúðarhverfisins, með það að markmiði að draga sem mest úr óþægindum íbúanna.

Vandamálið verður úr sögunni þegar Björgun flytur 2019.