Ólafur Steránsson hefur orð á því, að stundum séu fyrirsagnir í Mogga flott stuðlaðar og renni vel í vísu: Yfirtaks bjartsýnn á aðventu verð, þó umlyki skammdegið svarta, því bílasala' er á blússandi ferð, og bankamenn hættir að kvarta.

Ólafur Steránsson hefur orð á því, að stundum séu fyrirsagnir í Mogga flott stuðlaðar og renni vel í vísu:

Yfirtaks bjartsýnn á aðventu verð,

þó umlyki skammdegið svarta,

því bílasala' er á blússandi ferð,

og bankamenn hættir að kvarta.

En Kerlingin á Skólavörðuholtinu lætur sér fátt um finnast:

Sökkva mega í Satans dý

sótraftar af ýmsu tagi,

bölvað er að búa í

bavíanasamfélagi.

Ég tek nú bara svona til orða, ætlaði alls ekki að tala illa um bavíana. Ég get ekki ímyndað mér að samfélag þeirra sé jafn spillt og okkar.

Sá Gamli gat ekki orða bundist: „Ýmsu tagi, kerling, ýmsu tagi! Vandaðu þig kerling!“

Og Kerlingin lét ekki standa upp á sig:

Kannt að skjalla káta frú,

kitla, digga og róta,

skrambi ertu skondinn nú

skítseiðið mitt ljóta!

Ingólfur Ómar Ármannsson er áhyggjufullur: „Loksins, segi nú ekki annað:

Eftir baks og óratíð

enda á þrætur binda.

Kostað hefur stapp og stríð

stjórn að reyna að mynda.“

En Kristjana Sigríður Vagnsdóttir hefur sig yfir dægurþrasið: Fjallahringurinn, baðaður sólargeislum:

Fínsæll hrollur fór um mig,

er fór ég í mitt ból.

Sólin blessuð signdi sig,

senn eru komin jól.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir heldur sig við jörðina:

Alger snilld þessi yfirstétt

og yndisleg þessi dómara frétt

í Hæstarétti hafa menn rétt

til að hagræða reglunum sínum.

Nú hlýt ég að mega hundsa slatta af mínum.

Guðrún Bjarnadóttir tekur undir með sínum hætti:

Lítið var en lokið er, –

lífsins reglum

hendum burt og hagnað neglum.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is