Þeir sem brjóta lögin eru í daglegu tali kallaðir lögbrjótar. En hvað eru slíkir aðilar kallaðir ef þeir halda áfram á sömu braut og þrjóskast við að fara að lögum? Ég ætla að eftirláta lesendum að finna tilhlýðilegt orð yfir slíka aðila en það orðfæri sem mér dettur fyrst í hug í þessu sambandi er ekki talið birtingarhæft af Morgunblaðinu. Fyrir nokkru tóku stjórnendur Hafnarfjarðarbæjar þá ákvörðun að íþyngja rekstraraðilum í bænum sem hafa gáma á lóðum sínum með því að leggja sérstakt gjald á þá. Gjald þetta var ákveðið krónur 31.779,- per gám sem sundurliðast þannig að leyfisveitingargjald er 11.377,- að viðbættum tveimur klukkustundum í vinnu við að telja hvern gám á 10.201,- per klukkustund eða krónur 20.402,- í talningargjald á hvern gám. Það tekur hafnfirskan embættismann sem sagt tvær klukkustundir að telja upp að einum. Einhverjir gætu sennilega sætt sig við svo arfaslök afköst en ég fullyrði að ef viðkomandi teljari væri í vinnu hjá öðrum en opinberum aðila þá væri þó a.m.k. gerð krafa um að talið væri rétt á þessum hraða.
Í því tilviki sem snýr að mér þá var það þó ekki raunin. Gerð var krafa um greiðslu upp á krónur 476.685,- vegna útgáfu leyfis og talningar á 13 gámum. Ætla má að séu menn sérlega takmarkaðir þá taki þetta u.þ.b. eina klukkustund með ferðum til og frá bæjarskrifstofum. En það er kannski ekki undarlegt að hæfni þessara aðila sé ekki meiri en raun ber vitni í ljósi nýlegrar ráðningar hafnarstjóra hjá bænum. Í stað þess að ráða aðila í starf hafnarstjóra sem hefði menntun og reynslu af skiparekstri var ráðinn bakari í starfið.
Tekjustofnar sveitarfélaga eru ákveðnir í lögum nr. 4/1995 og þar er tekið fram að þeir séu fasteignaskattur, útsvar og framlög úr jöfnunarsjóði. Auk þess geta sveitarfélög haft tekjur af eignum sínum og eigin atvinnurekstri eins og t.d. holræsagjaldi, lóðaleigu, leyfisgjöldum o.s.frv. Sveitarfélögum er óheimilt að lögum að afla tekna úr hendi bæjarbúa eða rekstraraðila í bænum með öðrum hætti. Hafnarfjarðarbær ber fyrir sig mannvirkjalög frá árinu 2010 þegar umrætt gámagjald er lagt á rekstraraðila í bænum. Samkvæmt þessum sömu lögum er tekið skýrt fram að gjöld samkvæmt þessum lögum skuli byggjast á rekstraráætlun og séu þau rökstudd. Í sömu lögum segir að gjaldið megi ekki vera hærra en kostnaður við að veita umrædda þjónustu. Þessu skauta umræddir embættismenn létt fram hjá, staðráðnir í að halda sínu striki og brjóta lögin, já og það jafnvel þótt þeim hafi verið bent á ágallana við gjaldtökuna.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá umrædda embættismenn til að láta af brotastarfsemi sinni og feta veg réttvísinnar þá hafa þeir ekki sýnt nokkurn vilja til að láta af einbeittum brotavilja sínum. Það verður því ekki hjá því komist að fá úr því skorið hvort bæjarfélaginu sé stjórnað af lögbrjótum. Sé svo er rekstraraðilum ráðlegt að forðast að setja starfsemi sína niður innan bæjarfélagsins. Varðandi bakarann sem ráðinn var í stöðu hafnarstjóra skiptir kannski máli að hann er hápólitískur og var áður bæjarstjóri í Hafnarfirði. Þá skiptir líka kannski minna máli hvað menn kunna eða geta?
Ef embættismannaelítan í bænum er öll valin með það að leiðarljósi að hafa „réttar“ skoðanir burtséð frá því hvaða hæfileika þessir aðilar hafa til að bera þá er tæplega hægt að búast við því að lestrarkunnátta þeirra sé á það háu plani að hún gagnist þeim til að lesa sér til um þau lagaákvæði sem þeir vísa þrátt fyrir allt í.
Höfundur rekur fyrirtæki í Hafnarfirði.