Vísindi Árið 1984 var á dagskrá Sjónvarps umræðuþáttur þar sem bandaríski hagfræðingurinn Milton Friedman sat fyrir svörum. Meðal þátttakenda var Ólafur Ragnar Grímsson stjórnmálafræðingur sem gagnrýndi áherslur hans á peningahyggju og einkavæðingu.
Vísindi Árið 1984 var á dagskrá Sjónvarps umræðuþáttur þar sem bandaríski hagfræðingurinn Milton Friedman sat fyrir svörum. Meðal þátttakenda var Ólafur Ragnar Grímsson stjórnmálafræðingur sem gagnrýndi áherslur hans á peningahyggju og einkavæðingu. — Ljósmynd/Sögufélagið
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í níunda og síðasta bindi Sögu Íslands er til umfjöllunar 90 ára skeið sem hefst í árslok 1918, þegar Ísland varð sjálfstætt ríki, og því lýkur í ársbyrjun 2009, þegar bankahrun og búsáhaldabylting skóku íslenskt samfélag.

Í níunda og síðasta bindi Sögu Íslands er til umfjöllunar 90 ára skeið sem hefst í árslok 1918, þegar Ísland varð sjálfstætt ríki, og því lýkur í ársbyrjun 2009, þegar bankahrun og búsáhaldabylting skóku íslenskt samfélag. Jón Karl Helgason, Pétur Hrafn Árnason og Sigurður Líndal draga upp mynd af mannlífi og menningu í samfélagi sem var eitt hið fátækasta í Vestur-Evrópu en var um miðbik 20. aldar komið í hóp þeirra efnuðustu. Í kaflanum sem hér fer á eftir er sagt frá sögulegri stjórnarmyndun í lok áttunda áratugarins.

Ríkisstjórnin sem hér átti í hlut var um margt söguleg. Eftir kosningar í árslok 1979 hafði reynst ógerningur að mynda starfhæfan meirihluta og hafði Kristján Eldjárn forseti lagt drög að myndun utanþingsstjórnar undir forsæti Jóhannesar Nordal seðlabankastjóra. Í kosningunum höfðu vinstriflokkarnir tveir tapað miklu fylgi, vinstrisveiflan var á undanhaldi og allan níunda áratuginn voru þeir til samans með undir 30% fylgi. Framsóknarflokkurinn endurheimti fylgistap sitt frá 1978 en Sjálfstæðisflokkurinn var enn nokkuð fjarri sínu besta með 35%. Átök milli tveggja fylkinga settu um þetta leyti mjög mark sitt á ímynd og starf flokksins. Þetta voru ekki harðar hugmyndafræðilegar deilur heldur áratugalöng togstreita milli Geirs Hallgrímssonar formanns og Gunnars Thoroddsen varaformanns. Báðir áttu sína fylgismenn, Morgunblaðið og fráfarandi flokksforysta höfðu stutt Geir til formanns 1973, hann var hugsjóna- og framkvæmdamaður en Gunnar þótti tilkomumeiri að atgervi. Geir varð ekki jafn vinsæll stjórnmálamaður út fyrir raðir flokksmanna líkt og t.d. Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson enda var öll framkoma stjórnmálamanns farin að skipta meira máli þegar sífellt stærri hluti stjórnmálaumræðu fór fram í sjónvarpi.

Í febrúar 1980 hjó Gunnar Thoroddsen á Gordíonshnút þessarar stjórnarkreppu og myndaði ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi ásamt tveimur sjálfstæðisþingmönnum og hétu aðrir tveir stjórninni hlutleysi. Þetta gerði hann í fullkominni andstöðu við meirihluta þingflokksins og formann og því hafði átt sér stað sögulegur klofningur á hægri vængnum. Sáu alþýðubandalagsmenn myndun stjórnarinnar sem kærkomið tækifæri til að valda sundrungu innan Sjálfstæðisflokksins. Stjórnarsamstarfið gekk nær alla tíð brösuglega. Engu að síður náðist samstaða um umbætur í velferðarmálum. Í kjarasamningum 1980 náði Alþýðusamband Íslands að tryggja breytingar á lögum um fæðingarorlof þannig að allar konur, einnig heimavinnandi, ættu rétt á þriggja mánaða launum sem tóku mið af atvinnuþátttöku þeirra. Þá voru greiðslur fæðingarorlofs færðar alfarið frá Atvinnuleysistryggingasjóði yfir til Tryggingastofnunar. Ári síðar voru atvinnuleysisbætur hækkaðar, bótadögum fjölgað úr 130 í 180 á tólf mánaða tímabili og bótarétturinn rýmkaður. Að auki hleypti ríkisstjórnin af stokkunum áætlun um byggingu 1.500 íbúða í verkamannabústöðum en einungis tókst að ljúka við 700 þeirra.

Veður gerðust válynd í efnahagsmálum 1982, á einu ári hröpuðu loðnuveiðar úr 641.000 tonnum í 13.000 og þorskafli dróst saman 1981-83 úr 460.000 tonnum í 294.000 og raunar fór hann aldrei aftur á öldinni yfir 400.000 tonn á ári. Ríkisstjórninni gekk illa að komast að samkomulagi um viðbrögð við þessum þrengingum og var hún einkum ráðþrota gagnvart verðbólgu sem nam 60% á ársgrundvelli 1982 og fór um skeið upp í þriggja stafa tölu 1983. Í ársbyrjun 1981 voru tvö núll skorin aftan af íslensku krónunni og stóð hún þá jafnfætis norrænum gjaldmiðlum. En þetta jók ekki tiltrú á krónunni, á fyrstu 30 mánuðunum tapaði hún þriðjungi verðgildis síns og ekkert kom út úr samstilltu átaki gegn verðbólgu sem átti að fylgja myntbreytingunni úr hlaði. Í ríkisstjórninni var deilt um hvort ekki yrði að taka á þessum þrengingum með nýjum aðferðum, þ.e. hætta að rétta atvinnuvegina af með gengisfellingum og almennum niðurfærsluleiðum til að lækka launakostnað. Þess í stað skyldi beita aðhaldi í ríkisfjármálum og reyna að hafa áhrif á hagkerfið með vaxtabreytingum og stjórn á peningamagni í umferð.

Slík peningastefna, monetarismi, var víða að valda kaflaskilum í hagstjórn Vesturlanda eftir valdatöku Margaretar Thatcher í Bretlandi 1979 og Ronalds Reagan í Bandaríkjunum 1981. Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen valdi þó að fara ekki þessa leið, verðbólgan væri um margt skelfileg en þó skárri en atvinnuleysið sem var afleiðing peningastefnunnar. Í júní 1983 heimsótti Gunnar bresku hafnarborgina Newcastle og eftir að hafa kynnt sér hve efnahagsaðgerðir Thatchers höfðu leikið atvinnulíf borgarbúa grátt komst hann svo að orði: „Þá vil ég heldur inflation en þessar hörmungar“ (Guðni Th. Jóhannesson: Gunnar Thoroddsen, 555).

Þá deildu stjórnarliðar um endurskoðun samninga við álverið í Straumsvík. Hjörleifur Guttormsson iðnaðarráðherra gagnrýndi eigendur þess fyrir að hækka bókfært virði erlendra aðfanga (oft kallað „hækkun í hafi“) til að komast hjá hækkun raforkuverðs sem var tengt við afkomu verksmiðjunnar. Aðrir stjórnarliðar, einkum framsóknarmenn, óttuðust að slík óbilgirni myndi hindra frekari fjárfestingu í stóriðju en að lokum tókst að semja um rúmlega 100% hækkun raforkuverðs og tengingu þess við markaðsverð á áli.

Stjórnin sat í nærri þrjú og hálft ár – lengur en fyrri þriggja flokka stjórnir – og um margt hefur gagnrýni á hana fyrir bága hagstjórn ekki verið alls kostar sanngjörn. Þannig var t.d. ríkissjóður rekinn hallalaus tvö ár í röð í fyrsta sinn síðan í tíð viðreisnar. Enda var hún vinsæl meðal almennings allt fram á lokaskeið hennar þegar verðbólgan var sannarlega farin úr böndunum, a.m.k. ef marka má reglubundnar skoðanakannanir sem voru nýnæmi á valdatíma hennar. Að auki náðu þeir sjálfstæðismenn sem studdu stjórnina í andstöðu við flokksforystuna fádæma árangri í prófkjörum fyrir kosningar 1983. Á meðan galt formaðurinn, Geir Hallgrímsson, afhroð og féll í kjölfarið af þingi.

Þá kom í hlut næstu ríkisstjórnar, samstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forystu Steingríms Hermannssonar, að skera upp herör gegn verðbólgu með sársaukafullum aðgerðum fyrir launþega. Þessir tveir flokkar höfðu allt frá þriðja áratugnum (þá reyndar Íhaldsflokkurinn) talist höfuðandstæðingar í íslenskum stjórnmálum og margir framsóknarmenn tileinkað sér fræg ummæli Tryggva Þórhallssonar frá 1924, „allt er betra en íhaldið“. Flokkarnir höfðu eingöngu myndað tveggja flokka samsteypustjórnir 1953, 1956 og 1974 en nú var öldin önnur því allt frá 1983 til loka þess tímabils sem hér er til umfjöllunar, 2009, var einungis tvisvar efnt til stjórnarsamstarfs að afloknum kosningum án atbeina þeirra beggja, þ.e. 1991 og 2007.

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1983-87 fylgdi ekki einarðri, hægrisinnaðri peningastefnu í anda Thatchers, niðurskurður ríkisútgjalda var t.a.m. mun mildari og einkavæðing takmörkuð við sölu Landsmiðjunnar 1984 og hlutabréfa í Flugleiðum og Eimskipafélagi Íslands 1985. Sjálfstæðisflokkurinn var engu að síður stærri flokkurinn, þótt Steingrími hefði verið falið að gegna embætti forsætisráðherra vegna veikrar stöðu Geirs Hallgrímssonar, og gætti nú meira áhrifa frjálshyggju í stefnu hans með umsvifum svonefnds Eimreiðarhóps. Þetta voru einstaklingar sem höfðu gefið út samnefnt tímarit á áttunda áratugnum undir einkunnarorðunum „Kjölfesta frjálshyggjunnar er trúin á manninn“ og áttu þrír þeirra eftir að verða næstu flokksformenn, Þorsteinn Pálsson (1983-91), Davíð Oddsson (1991-2005) og Geir Haarde (2005-09).

Skýr hægristefna var t.d. við lýði í innleiðingu frjálsari markaðshátta. Allan lýðveldistímann hafði verið miðstýrt verðlagseftirlit með ýmiss konar opinberum afskiptum af verðmyndun á markaði, m.a. með því að grípa til verðstöðvunar til að reyna að halda aftur af verðbólgu. Í ársbyrjun 1984 voru þannig afnumdar ýmsar takmarkanir á álagningu í verslun í þeirri von að virk samkeppni héldi aftur af verðhækkunum. Neytendasamtök þreyttust þó seint að benda á að ansi víða væri slík „virk samkeppni“ ekki fyrir hendi. Áhrifa peningastefnu mátti greina í eflingu innlends fjármagnsmarkaðar með stofnun Verðbréfaþings Íslands 1985 (nefndist Kauphöll Íslands 2002) og þegar viðskiptabönkum var veitt aukið frelsi til að ákvarða vexti 1986. Ennfremur innleiddi stjórnin strax í upphafi mjög harkalegar aðgerðir á vinnumarkaði, afnam vísitölubindingu launa (þá voru eingöngu inn- og útlán verðtryggð skv. Ólafslögum), felldi gengið um 15%, bannaði verkföll um hríð og framlengdi kjarasamninga einhliða.

Launþegar urðu fyrir einni mestu skerðingu á kjörum og réttindum í sögunni, ekki síst þar sem hún varð um líkt leyti og þjóðarbúið sigldi vegna fyrrnefnds aflasamdráttar inn í djúpa kreppu. Haustið 1984 skipulögðu BSRB og Félag bókagerðarmanna verkfall sem hafði lamandi áhrif á þjóðlíf því það náði m.a. til allra helstu fjölmiðla landsins. Verkfallið skilaði hins vegar litlum kjarabótum en olli sundrungu innan verkalýðshreyfingarinnar þar sem ASÍ studdi það ekki enda höfðu félagar þess orðið fyrir minni kjaraskerðingu. Aðgerðir stjórnarinnar leiddu til þess að verðbólgan lækkaði niður í 25% að jafnaði 1983-87 og hafði þá ekki verið lægri síðan á öndverðum áttunda áratugnum. En aðgerðirnar voru sársaukafullar, einkum fyrir opinbera starfsmenn og lántakendur. Árið 1984 var t.d. áætlað að sá sem keypti meðalstóra þriggja herbergja íbúð þyrfti að greiða 125% kaupverðsins þegar háir raunvextir höfðu stökkbreytt lánunum. Tíu árum áður hafði verðbólgan leikið fasteignalánið svo grátt að kaupandinn hefði greitt að raunvirði helming af umsömdu verði íbúðarinnar.