Þótt Jón Helgason biskup hafi fengist töluvert við myndlist og ritstörf í tómstundum, leit hann á þá iðju sem hvíld frá annasömum störfum við kirkjustjórnina. Á annað hundrað Reykjavíkurmyndir hans sem Árbæjarsafn varðveitir eru merk heimild um Reykjavík hans tíma og raunar fyrir hans minni því margar þeirra eru gerðar samkvæmt eldri heimildum og voru órjúfanalegur hluti upplýsingaöflunar hans og miðlunar um sögu Reykjavíkur.
Jón kom frá kristnu heimili og virðist aldrei hafa komið neitt annað til greina en að læra til prests. Segir hann frá því í óbirtum æviminningum sínum að þegar hann var kominn til náms í Kaupmannahöfn hafi það tekið hann nokkurn tíma að kynnast öðrum bókmenntum en guðfræðilegum og ekki hafi verið vanþörf á því vegna þess hversu lélegan grundvöll hann hafi fengið í skólanum heima.
Hann var hneigður fyrir dráttlist frá æsku og fyrstu myndirnar sem til eru eftir hann eru frá námsárum í Lærða skólanum. Fljótlega eftir að hann kom til Kaupmannahafnar fór hann að sækja sýningar og var iðinn við það. Þá keypti hann sér tilsögn hjá norskum málara í Höfn. Hann tekur fram í æviminningunum að hann hafi aldrei dreymt neina listamannsdrauma og sagði að þó líta ætti á myndir hans sem viðvaningsverk, hefði þetta sýsl gefið honum fjölda ánægjustunda á ævinni.
Sagnfræðileg heimild
Inga Jónsdóttir, safnstjóri Listasafns Árnesinga og barnabarnabarn Jóns biskups, bendir á að Jón hafi fyrst og fremst verið að mála til að svala sagnfræðilegum áhuga og miðla þekkingunni til komandi kynslóða. Áherslan hafi alltaf verið á guðfræðina. Hann hafi haft hæfileika í myndlistinni og ef hann hefði einbeitt sér að henni kynni hann að hafa orðið brautryðjandi á því sviði hér á landi.Spurð um gildi verka biskupsins segir Inga að Reykjavíkurmyndir hans og kirkjuteikningar séu fyrst og fremst sagnfræðileg heimild. „Margar myndir hans eru fallegar en þær eru ekki tímamótaverk í myndlist. Hann er samt aðallega að uppfræða samtímamennina, eins og í guðfræðinni, þó tjáningarmátinn sé blýantur og pensill,“ segir Inga.
Eftir að Jón lét af biskupsembætti skrifaði hann margar bækur, aðallega um sagnfræðileg efni. Fyrirferðarmestar eru bækur hans um sögu Reykjavíkur og Reykvíkinga. Ekki má gleyma ævisögu Tómasar Sæmundssonar Fjölnismanns, afa hans. Mun það enn vera eina heillega ævisaga Tómasar.