Landspítali Hámark er sett á útgjöld fólks til heilbrigðisþjónustu.
Landspítali Hámark er sett á útgjöld fólks til heilbrigðisþjónustu. — Morgunblaðið/Ómar
Þak er sett á kostnað fólks við heilbrigðisþjónustu, samkvæmt drögum að reglugerð sem velferðarráðuneytið hefur birt. Almennir notendur munu greiða að hámarki 50 til 70 þúsund krónur á ári og börn, aldraðir og öryrkjar á bilinu 33 til 46 þúsund.

Þak er sett á kostnað fólks við heilbrigðisþjónustu, samkvæmt drögum að reglugerð sem velferðarráðuneytið hefur birt. Almennir notendur munu greiða að hámarki 50 til 70 þúsund krónur á ári og börn, aldraðir og öryrkjar á bilinu 33 til 46 þúsund.

Í reglugerðinni, sem sett er samkvæmt lögum sem samþykkt voru í júní sl., er nákvæmlega kveðið á um gjaldskrár fyrir veitta heilbrigðisþjónustu.

Við innleiðingu á nýju kerfi munu greiðslur fólks fyrir heilbrigðisþjónustu mánuðina á undan reiknast til afsláttar. Kostnaðarþök í greiðsluþátttökukerfi sem reiknað er með að taki gildi 1. febrúar verða því 49.200 fyrir almennan notanda með fullan afslátt og 32.800 fyrir börn, aldraða og öryrkja með fullan afslátt. Almennur notandi þarf að greiða að hámarki 69.700 kr. á ári, fyrir heilbrigðisþjónustu sem lögin ná til, hafi hann ekki öðlast fullan afslátt og öryrkjar, aldraðir og börn 46.467 kr. að hámarki.

Alþingi tryggi heimildir

Aukin útgjöld ríkisins hafa ekki verið fjármögnuð að fullu. Í tilkynningu ráðuneytisins er vísað til skýringa í frumvarpi til fjárlaga næsta árs þar sem fram kemur að það muni koma til kasta Alþingis að tryggja nauðsynlegar útgjaldaheimildir. Haft er eftir Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra að þeir sem mest þurfi á heilbrigðisþjónustu að halda séu varðir fyrir miklum útgjöldum, eins og lengi hafi verið rætt um að gera. helgi@mbl.is