Viðskiptaferðalög
Það getur verið í meira lagi snúið að pakka rétt fyrir viðskiptaferðalagið. Miklu skiptir að pakka sem minnstu og helst láta allt rúmast í handfarangrinum. Þannig má skjótast í gegnum flugvellina og rjúka með lestum og strætisvögnum beinustu leið á fundi eða upp á hótel.
En um leið verður að passa að fatnaðurinn, og þá jakkafötin alveg sérstaklega, haldist fallegur. Ekki dugar að taka upp úr töskunum krumpaðar skyrtur og jakka sem þarf svo að bisa við að reyna að pressa uppi á hótelherbergi áður en haldið er á fyrsta fundinn.
Margir grípa til þess ráðs að fjárfesta í jakkafatapoka þar sem má láta vinnufötin liggja slétt og lágmarka fellingarnar. Gallinn við þannig poka er að þeir eru fyrirferðarmiklir og þarf helst að halda á þeim alla leið á áfangastað; í besta falli koma þeir með ól sem má slengja yfir aðra öxlina.
Taskan frá Vocier leysir vandann með einstaklega sniðugri hönnun. Má lýsa töskunni þannig að í miðjunni er kjarni þar sem skóm og skyrtum er komið fyrir. Eins konar jakkafatapoka er síðan vafið utan um þennan kjarna, og útkoman er taska sem er nokkurn veginn svipuð í laginu og aðrar handfarangurstöskur, með hjólum og handfangi.
Kaupa má sérhannaða tösku undir snyrtivörurnar (með glæru plasti á annarri hliðinni, fyrir öryggisleitina), og hægt er að taka snyrtivörurnar úr töskunni án þess að vefja jakkafatapokanum utan af kjarnanum. Þýðir þetta að ekki þarf að standa í heilmikilli pökkunaraðgerð til að komast í gegnum röntgenvélar flugvallanna.
Í útdraganlegu handfanginu er líka lítill vasi sem rúmar vegabréf og farsíma.
Best af öllu er svo kannski að taskan er einstaklega snotur og fæst í slitsterku svörtu gerviefni, svörtu leðri og brúnu.
Vocier-taska með snyrtivörupoka kostar tæpa 800 dali hjá www.vocier.com ai@mbl.is