„Það má segja að hér sé töluverður uppgangur og góðærisbragur á ýmsu,“ segir Gunnsteinn Ómarsson bæjarstjóri en á síðasta ári fjölgaði íbúum Ölfuss um 4% og komst sveitarfélagið í 22. sæti á lista þeirra stærstu á landinu. Það ár varð meiri fjölgun í aðeins einu öðru sveitarfélagi, Grindavík. Stefnir allt í svipaða fjölgun í Ölfusi á þessu ári og reiknar Gunnsteinn með að í fyrsta sinn fari íbúafjöldinn yfir 2.000 um komandi áramót.
„Það eru ýmis jákvæð teikn á lofti. Fyrir rúmum tveimur árum stóðu fjölmargar íbúðir auðar í Þorlákshöfn, margar þeirra í eigu Íbúðalánasjóðs. Á síðasta ári og þessu fer fjölgunin af stað og núna er orðinn hörgull á húsnæði, bæði á kaup- og leigumarkaði. Við reiknum með frekari fólksfjölgun á allra næstu mánuðum og þá munu þær íbúðir fyllast sem enn eru á lausu eða eru þegar seldar,“ segir Gunnsteinn.
Umsóknir hafa borist um byggingarlóðir en hann segir sveitarfélagið hafa áhuga á að fá leigufélög inn á svæðið til að byggja fleiri leiguíbúðir, skortur sé á smærra húsnæði.