„Verði þetta að lögum verður þetta gríðarlegt áfall. Þetta mun hafa geigvænlegar afleiðingar fyrir alla starfsemi Landhelgisgæslunnar,“ sagði Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is í gær um fjárveitingar til stofnunarinnar miðað við tillögur í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2017.
Georg sagði Landhelgisgæsluna hafa orðið fyrir verulegum tekjubresti á yfirstandandi ári og þannig yrði það áfram á næsta ári. Óskað var eftir 300 milljóna króna aukaframlagi til viðbótar við framlag ársins 2016 en það fæst ekki miðað við fjárlagafrumvarpið. „Tekjurnar sem við verðum af eru um 700 milljónir þannig að það er mjög auðvelt að sjá að við erum í miklum vanda.“
Georg greindi frá því að niðurskurður hjá Landhelgisgæslunni hefði verið um 30% frá árinu 2009, sem samsvarar um 1.200 milljónum. Til að fylla aðeins í það gat hefur stofnunin aflað sértekna með vinnu í útlöndum og notað til þess gömlu skipin sín. Þau eru aftur á móti ekki lengur tæk í þau verk vegna þess hve gömul þau eru orðin og því verður stofnunin af í það minnsta 700 milljónum króna á næsta ári. „Til þess að halda úti lágmarksþjónustu óskuðum við eftir 300 milljónum en verði þetta að lögum þýðir það í raun að við föllum fram af ákveðinni brún. Við erum búin að vera á línunni í langan tíma en þetta ýtir okkur fram af þessari brún.“
Afleiðingarnar yrðu þær að ekki yrði unnt að gera út varðskip nema hluta árs og allt bendir til þess að stofnunin þurfi að skila einni af þremur þyrlum sem hún hefur til umráða. „Þetta þýðir á mannamáli að Landhelgisgæslan er ekki lengur öruggur þáttur í leitar- og björgunarkeðju þessa lands,“ sagði Georg.