Óskar Vigfússon fæddist í Hafnarfirði 8.12. 1931. Hann var sonur hjónanna Epiphaníu Ásbjörnsdóttur og Vigfúsar Vigfússonar sjómanns.

Óskar Vigfússon fæddist í Hafnarfirði 8.12. 1931. Hann var sonur hjónanna Epiphaníu Ásbjörnsdóttur og Vigfúsar Vigfússonar sjómanns.

Afasystur Óskars voru Guðbjörg, amma Gunnars Guðbjartssonar, framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs landbúnaðarins, og Bjarnveig, amma Sturlu Böðvarssonar, fyrrv. ráðherra. Foreldrar Vigfúsar voru Vigfús Vigfússon, bóndi á Kálfárvöllum í Staðarsveit, og Sólveig, systir Brands, móðir Kristínar, konu Helga Pjeturss jarðfræðings.

Foreldrar Epiphaníu voru Ásbjörn Gilsson, útgerðarmaður í Ólafsvík, og k.h., Hólmfríður Guðmundsdóttir, systir Sólveigar móður Karvels Ögmundssonar útgerðarmanns.

Eiginkona Óskars var Nicolína Kjærbech Vigfússon og eignuðust þau þrjú börn.

Óskar ólst upp í Hafnarfirði en dvaldi hjá Guðbrandi Vigfússyni, föðurbróður sínum, og konu hans, Elínu Snæbjörnsdóttur í Ólafsvík, 1940-47. Hann lauk barnaskólaprófi frá Lækjarskóla í Hafnarfirði.

Óskar var verkamaður hjá Rafha og Venusi í Hafnarfirði 1947-48, háseti á ýmsum skipum 1948-68, var verkamaður við hafnargerð í Straumsvík 1968-71 og skrifstofumaður hjá Sjómannafélagi Hafnarfjarðar og Verkamannafélaginu Hlíf 1971-76.

Óskar sat í stjórn Sjómannafélags Hafnarfjarðar frá 1966, var formaður þess frá 1973 og formaður Sjómannasambands Íslands 1976-94 en sat í stjórn þess til 2005.

Óskar sat í Verðlagsráði sjávarútvegsins frá 1977, í síldarútvegsnefnd frá 1978, í stjórn og varastjórn Fiskveiðasjóðs frá 1982 og í ráðgjafarnefnd um stjórn fiskveiða 1983-90. Hann sat í miðstjórn ASÍ frá 1977, í sambandsstjórn Alþjóðasambands flutningaverkamanna frá 1982, í fulltrúaráði Sjómannadagsins í Reykjavík og Hafnarfirði 1970-85 og í stjórn Hrafnistu til dauðadags.

Óskar lést 23.3. 2006.