Þórdís Björnsdóttir fæddist 9. desember 1933. Hún lést 27. nóvember 2016.

Útför Þórdísar fór fram 5. desember 2016.

„Mamma, af hverju að gráta?“ spurði nafna þín mig um daginn eftir að ég fékk fregnir af því að þú hefðir farið frá okkur á annan stað.

Ég sagði henni að það væru til mismunandi tár, tár af gleði, sorg og söknuði, tár af alls konar trega.

Eftir stutta stund minnti hún mig á að ég þyrfti ekki að vera leið því ég ætti litla Dísu, og hún ætti nafnið þitt.

Elsku frænka mín, nú þurfum við sem eftir sitjum að klára okkur án þín, en þú undirbjóst okkur vel. Ein af mínum fyrstu minningum um þig er að þú varst að kenna mér að klæða mig að morgni: fyrst í sokkana. Þann háttinn hef ég enn í dag á og nú hugsa ég um þig í hvert sinn.

Ég hugsa að það hafi verið í sömu gistiheimsókn sem ég fékk í fyrsta sinn kartöflu í skóinn, sem gekk ekki betur en svo að ég bað þig að elda hana fyrir mig.

Það var ekki alltaf einfalt verk sem þú tókst að þér, að kenna þessum stelpukjána sem ég var að greiða sér, klæða sig eða taka til, og oft sagðir þú mér frá því þegar ég neitaði að hleypa þér inn heima þegar þú og Siggi frændi komuð í heimsókn. Sjálfsagt hefur allt verið í drasli og enginn tími til að lagfæra það á meðan þið hefðuð komið upp stigann, svo þið urðuð frá að hverfa.

Ég er búin að skammast mín alveg sæmilega mikið í hvert sinn sem þessi saga er sögð.

En með smá brosi, því þú brostir iðulega þegar þú sagðir frá. Ég á svo margar fallegar og góðar minningar um þig og heimsóknir til ykkar Sæsa. Að fá að liggja á neðri hæðinni og hlusta á Pílu Pínu-plötuna, heimsóknir á aðventunni þar sem allt var skreytt og jólalegt og þú búin að baka.

Og núna í seinni tíð, skjól frá amstri dagsins þegar ég var á þönum í Reykjavík og langaði bara aðeins að koma til þín og fá kaffi og hlusta á röddina þína sem ég elskaði svo mikið.

Mig dreymdi í síðustu viku að ég væri á leið til kirkju og keyrði fram hjá húsinu ykkar, í draumnum leit ég í áttina að því sorgmædd, en þú stóðst þarna við eldhúsgluggann og varst svo frísk og falleg með bros á vör.

Svo, tárin mín sem tileinkuð verða þér verða tár af gleði yfir öllum fallegu stundunum okkar, tár af þakklæti fyrir alla sokkana sem hlýja mér, en það verða alltaf nokkur tár af söknuði að heyra ekki fallegu röddina þína segja í símanum: „Þetta er Dísa frænka.“

Elsku yndislega frænka mín, takk fyrir samfylgdina og allt sem þú kenndir mér.

Við sjáumst bara seinna.

Elsku fjölskylda, ég votta ykkur samúð okkar á ströndinni.

Júlía Björnsdóttir og

fjölskylda á Stokkseyri.

Elsku vinkona mín Þórdís Björnsdóttir er fallin frá. Það er sárt að sjá á eftir henni, hún var einstök. Vinátta okkar frá Borgarfirði eystra hófst þegar við vorum nokkurra ára gamlar. Dísa var víkingur til allra verka og réð sig sem matráðskonu hjá vegagerð í Kanada. Eftir heimkomuna var hún matráðskona víða um landið. Á Eskifirði kynntist hún ástinni sinn, honum Sæsa. Þau voru alla tíð eins og nýtrúlofuð, þau voru yndisleg hjón. Þau eignuðust þrjú yndisleg börn. Dísa var alla tíð mjög montin af börnum sínum, tengdabörnum og barnabörnum enda allt mætasta fólk.

Dísa var einstaklega myndarleg í höndunum og prjónaði allrahanda flíkur fyrir sitt fólk, útsaumur var hennar áhugamál og hún saumaði hvern listadúkinn á fætur öðrum. Jóladúkarnir hennar voru listaverk. Öðru sem hún gerði í höndunum get ég varla lýst. Hún var listakona og allt sem hún gerði var list. Dísa var einstaklega góð manneskja, hún var mér betri en enginn. Það er gott að hugsa um allar góðu stundirnar sem við áttum saman sem smástelpur og sem fullorðnar konur. Blessuð sé minning Dísu. Ég sendi Sæsa, börnum, tengdabörnum og barnabörnum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Guð blessi ykkur í sorg ykkar.

Æskuvinkona,

Guðný.