Aðalheiður Snorradóttir fæddist 29. október 1914. Hún lést 29. nóvember 2016.
Útför Aðalheiðar fór fram 5. desember 2016.
Minningarnar streyma fram mildar og bjartar í senn eða sem skínandi stjörnur er lýsa mér enn. Já mér finnst jafnvel að ég muni er þið genguð í hlað, þú, Jóhannes og Snorri vorið '42. Já, auðvitað genguð þið í hlað á Stað því enginn var nú bílvegurinn og ekki áttuð þið hest eins og fyrri prestshjónin.
Og auðvitað get ég ekki fullyrt hversu mikið myndir hjálpa minningum mínum, þá tæplega þriggja ára.
En hitt get ég fullyrt að hversu feimin sem við systkinin vorum á þessum árum þá fór sú feimni fljótlega af og við tengdumst órjúfanlegum vináttuböndum er entust alla tíð. Því í þrjátíu ár áttum við samleið, yndislega samleið sem aldrei bar skugga á. Fyrstu 18 árin skildi stiginn einn á milli, þessi góði gamli stigi er við krakkarnir sátum í og fylgdumst með lífinu á báðum hæðum, hlustuðum á tónana úr stofunni ykkar en Jóhannes tók strax að æfa kvartett og gamansöng.
Fleiri gátu nú gripið í orgelið með misfögrum tónum en allt veitti þetta okkur mikla gleði og húsið ilmaði af baksturslykt frá báðum hæðum.
Margan kökubitann þáðum við þó enginn jafnaðist á við pressugerssnúðana þína sem ég baka enn. Já, þið hjónin tókuð strax fullan þátt í samfélaginu okkar Dalbúa sem og í Súgandafirði öllum og urðuð vinsæl og dáð. Því þó að margt reyndist ólíkt því sem þú áttir að venjast, nýkomin frá útlandinu, reyndirðu að gera eins gott úr því og hægt var.
Og ýmsar breytingar urðu nú fljótt er Jóhannes tók að byggja þvottahús, forstofu með salerni og að lokum bílskúr sem stendur einn eftir, því húsið brann.
En þá var loksins upp risið nýja húsið ykkar. Já, mikið þótti mér ljúft að heyra þig segja þá 100 ára að þú hefðir aldrei enst svona lengi við erfiðar aðstæður ef sambýlisfólkið hefði ekki verið svona einstakt og saman, getum við sagt.
Já, þið reynduð sannarlega bæði skin og skugga saman, því litlar stúlkur er leiddust alltaf hurfu alltof fljótt. Og miklu síðar voru fóstbræðurnir Snorri og Óli brottkallaðir í fullu starfi. En öllum áföllum var tekið með einstakri ró og trúartrausti. Og yndisleg bernsku- og æskuár áttum við saman á Stað, tvær stúlkur og þrír drengir á báðum bæjum. Og þú stóðst þig ætíð með prýði hvort sem var við athafnir í kirkju eða móttökur heima fyrir í gleði eða sorg, því að allar erfidrykkjur voru haldnar á Stað. Og kraftur þinn nýttist vel heima hvort sem var við heyskap, rúningu, berjatínslu eða garðrækt. Áttuð þið hjónin góðan garð er gaf frábæra uppskeru. Og þannig varst þú alla tíð, ræktaðir þinn garð með frábærri prýði og uppskarst einstaka virðingu og þökk allra, ekki síst okkar systkinanna frá Stað.
Elsku Sigrún mín, Pálmi, Sigurður og aðrir aðstandendur, hjartans samúðarkveðjur.
Þóra Þórðardóttir.