Bókaútgáfan Hólar gefur að þessu sinni út þrjár bækur með léttum gamansögum úr ýmsum áttum; Héraðsmannasögur , Sigurðar sögur dýralæknis og Skagfirskar skemmtisögur 5 – Endalaust fjör! Hér eru birtar nokkrar sögur úr bókunum, með góðfúslegu leyfi útgáfunnar, og byrjað á Héraðsmannasögum sem hafa að geyma gamansögur af Héraðsbúum fyrr og nú. Bókina tóku saman þeir Jón Kristjánsson, fv. ráðherra og þingmaður, og Ragnar Ingi Aðalsteinsson frá Vaðbrekku.
Héraðsmannasögur
Eiríkur Eiríksson frá Dagverðargerði í Tunguhreppi var í mörg ár bókavörður á Alþingi. Hann þótti passasamur á peninga og ekki græddu tískubúðirnar mikið á honum.Eitt sinn fór Eiríkur með vini sínum, Sverri Hermannssyni, lengi þingmanni Austurlands og ráðherra um tíma, út á Reykjavíkurflugvöll að ná í móður bókavarðarins. Þannig háttaði til að móðir hans var að koma í fyrsta skipti á ævinni til Reykjavíkur, því hún þurfti að fara í uppskurð á Landspítalanum við alvarlegum sjúkdómi.
Eiríkur átti ekki bíl og sá Sverrir um aksturinn. Ók hann meðal annars fram hjá Hagkaup og hefur þá á orði við móður vinar síns að þarna fáist allt milli himins og jarðar; matvörur, bækur og kjólar svo eitthvað sé nefnt.
„Kjólar!“ segir gamla konan. „Ég hef ekki eignast nýjan kjól í marga áratugi.“
„Hvaða, hvaða,“ segir Sverrir, „við tökum kóssinn á búðina og kaupum kjól eins og skot.“
Um leið baðaði Eiríkur út höndunum í aftursætinu og stundi svo upp:
„Mamma, mamma, eigum við ekki að láta það bíða og sjá til hvernig uppskurðurinn gengur.“
* Vilhjálmur Hjálmarsson – Villi á Brekku – alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn og ráðherra, var stakur bindindismaður og veitti aldrei vín í veislum á ráðherraárum sínum, eins og frægt varð.
Vilhjálmur og Þorsteinn Sveinsson, kaupfélagsstjóri á Egilsstöðum, voru góðir kunningjar. Fyrir nokkrum áratugum mættumst þeir á Mjóafjarðarheiði og tóku tal saman. Þorsteinn var á splunkunýjum bíl, ljómandi fallegum. Vilhjálmur áttaði sig ekki almennilega á litnum og hafði orð á því við Þorstein.
„Það er varla von að þú kannist við litinn,“ sagði Þorsteinn. „Bíllinn er nefnilega vínrauður.“
* Það óhapp varð hjá Flugfélagi Austurlands á sínum tíma að flugmaður hjá félaginu var að koma í lágflugi frá Vopnafirði á lítilli flugvél og rak vænginn ofan í Jökulsá í Dal. Sem betur fer endaði þetta vel. Flugmaðurinn, sem var einn í vélinni, slapp lítt meiddur og vélin náðist á þurrt land.
Nokkru eftir þennan atburð var Frissi í Skóghlíð staddur á flugvellinum á Egilsstöðum. Kemur þá viðskiptamaður þar í afgreiðsluna og spyr hvernig útlitið sé með flug til Vopnafjarðar, hvort það sé fært þangað. Frissi tók að sér að afgreiða málið og sagði áður en flugfélagsmenn komust að: „Það lítur ágætlega út, það er lítið í Jökulsá í dag.“
* Það vakti mikla athygli í fjölmiðlum þegar bóndi austur á Jökuldal, Vilhjálmur á Skjöldólfsstöðum, var ákærður fyrir veiðiþjófnað og frystigámur sem hann átti að húsabaki innsiglaður af lögreglu þar sem laganna verðir töldu sig hafa fundið þar illa fengið hreindýrakjöt. Mikið fjör var í kringum lögreglurannsóknina, meðal annars komu fréttamenn frá sjónvarpinu og tóku viðtal við Vilhjálm þarna á staðnum meðan allt var að gerast. Um kvöldið var frétt um málið í sjónvarpinu og þá rætt við bóndann sem var titlaður Vilhjálmur Snædal veiðiþjófur. Hákon Aðalsteinsson horfði á fréttirnar um kvöldið og honum varð þá ljóð af munni:
Þjóðarmiðillinn þykir mér grófur
á þessari nýju öld.
Vilhjálmur Snædal veiðiþjófur
var á skjánum í kvöld.
Næsta dag var búið að rjúfa innsiglið og kjötið horfið, bóndi staðhæfði í viðtali við sjónvarpið að einhver ósvífinn þjófur hefði brotist inn og stolið kjötinu enda hefðu lögregla og fjölmiðlar hjálpast að við að auglýsa það.
Vilhjálmur var svo kærður fyrir veiðiþjófnað og dæmdur í nokkuð háa sekt. Vinur hans og sveitungi, Kári Stefánsson í Merki, gekkst fyrir söfnun til að styrkja Vilhjálm til að greiða sektina, sagði að það næði ekki nokkurri átt að bændur á Jökuldal borguðu fyrir að veiða sér til matar, þetta hefðu þeir gert alla tíð án þess að kæmi til lögregluafskipta. Safnað var undir slagorðinu „Free Willy“. Söfnunin gekk vel og fékkst fyrir sektarupphæðinni allri.
* Gísli Helgason í Skógargerði í Fellum var þekktur maður og höfðingi í sinni sveit. Eitt sinn varð honum misdægurt. Þetta var á þeim árum þegar lyf var ekki að fá á Fljótsdalshéraði nær en á Seyðisfirði. Nágranni var sendur út af örkinni til þess að nálgast lyfin og þótti rétt að nota ferðina og ná í leiðinni í lyf handa veikum hesti í nágrenninu. Ferðin yfir Fjarðarheiði gekk áfallalaust hjá sendimanni og þegar á Seyðisfjörð kom nálgaðist hann lyfin, duft handa hestinum sem blásið skyldi ofan í hann með tilheyrandi pípu og svo dropa handa bóndanum í Skógargerði. Að þessum erindum loknum kemur hann við í Áfengisverslun ríkisins sem þá var eina verslunin sem seldi áfenga drykki austanlands. Svo var um marga sem versluðu þar að erfitt var að bíða lengi með að prófa varninginn og þróuðust mál þannig að sendimaður var orðinn sæmilega groggaður þegar kom upp á Hérað. Vildi ekki betur til en svo að hann ruglaði meðulunum. Duftið með pípunni fór í Skógargerði en droparnir í hestinn. Var duftinu blásið ofan í Gísla með viðhöfn og svo brá við að hann varð alheill og var við hestaheilsu það sem eftir lifði ævinnar. Dropunum, sem ætlaðir voru Gísla, var hins vegar hellt ofan í hestinn með þeim afleiðingum að hann steindrapst.
* Það voru sagðar skemmtisögur á lokahófunum eftir aðalfundi K.H.B. og það vildi brenna við þegar fór að líða á samkvæmið að efni sagnanna varð dálítið neðan mittis, eins og sagt er. Eitt sinn varð Óli Sigurðsson á Hauksstöðum á Jökuldal samferða Jóni Kristjánssyni út eftir samkvæmið. Þegar út kemur segir Óli: „Segðu mér Jón, er samvinnuhreyfingin tómt klám?“
Jón setti hljóðan við þessa spurningu.
Sigurðar sögur dýralæknis
Í bókinni Sigurðar sögur dýralæknis segir hinn kunni sagnamaður, Sigurður Sigurðarson dýralæknir, fjölmargar gamansögur af prestum, stjórnmálamönnum, læknum og dýrum. Hér ser gripið niður í prestakafla bókarinnar og byrjað á séra Baldri Vilhelmssyni í Vatnsfirði:Séra Baldur stundaði kennslu í Reykjanesskóla og skiptust kennarar á vakt á heimavistinni um kvöld og nætur.
Baldur tók starfið alvarlega og á fyrsta kvöldi greip hann tvo stráka, sem höfðu læðst í matarbúrið og nælt sér þar í nokkrar dósir með niðursoðnum ávöxtum. Prestur var sjálfur sólginn í þess konar rétti. Hann tók í hnakkadrambið á strákunum og sagði:
„Þetta er ekki Guði þóknanlegt, en þið sleppið, ef ég fæ helminginn.“
Strákarnir skömmuðust sín svo mjög, að þeir vöndust af öllu hnupli.
* Við þessa velgengni í eftirlitinu færðist séra Baldur í aukana og gekk hljóðlega eftir göngum skólans. Hann heyrði þrusk í einu herberginu og lagði eyra að dyrastaf. Hann sannfærðist um að innan við dyrnar færi eitthvað það fram, sem ókristilegt væri. Hann svipti upp dyrunum. Þar stendur þá kviknakin griðkona, sem var í miðjum klæðaskiptum. Henni bregður afskaplega við og hrópar upp yfir sig.
„Jesús minn almáttugur.“
Baldur svarar þá:
„Nei, ekki er ég hann, en við vinnum hjá sama fyrirtæki.“
* Bræðurnir frá Dröngum, Guðmundur Óli og Guðjón Kristinssynir, voru að hlaða upp gamla verbúð í Vatnsfirði árið 2003. Séra Baldur kemur til þeirra og Guðmundur Óli segir við hann:
„Hvað segir þú mér af gömlu vinkonu minni, henni Sigríði?“
Baldur svarar:
„Henni líður vel, hefur aldrei liðið betur. Ég jarðaði hana fyrir fimm mánuðum.“
* Biskupinn yfir Íslandi, herra Sigurbjörn Einarsson frá Efri-Steinsmýri í Meðallandi, var að vísitera fyrir austan Sand fyrir löngu. Það var áður en Sveinn Runólfsson í Gunnarsholti ræktaði upp Mýrdalssand og melur og lúpína og birkihríslur náðu að draga úr sandfoki. Ófært varð yfir sandinn, ef hann blés hressilega af norðri. Þeir, sem lögðu á sandinn í slíku veðri, áttu von á því að bíll þeirra kæmi sandblásinn úr ferðinni.
Meðan biskupinn var fyrir austan skall á norðanveður. Sandurinn varð ófær. Lítið var um opinbera gististaði fyrir austan Sand og því ekki um annað að ræða en að leita gistingar á sveitabæ.
Biskup baðst gistingar hjá fermingarbróður sínum, sem átti heima í Meðallandi og var fátækur þrifamaður. Innréttingar í kotinu hans voru glæsilegar, gerðar úr góðviði ásamt skrauti úr strandskipi. Húsþrengsli voru þó svo mikil, að hjónin urðu að ganga úr rúmi fyrir biskupi, en tólf ára dóttursonur þeirra varð að sofa í hjónarúminu hjá biskupnum.
Herra Sigurbjörn var þreyttur og leiður yfir því að komast ekki suður, þar sem hann átti brýnum erindum að gegna, fór snemma í háttinn og dró sængina upp fyrir höfuð. Þegar hann er að sofna, heyrir hann þrusk, lyftir upp sængurhorni og sér að drengurinn krýpur við rúmstokkinn sín megin. Biskupi bregður við. Hann hafði gleymt að fara með kvöldbænir sínar. Hann snarast fram úr rúminu, krýpur við rúmstokkinn og fer að biðjast fyrir. Drengurinn lítur til hans og segir:
„Hvað ert þú að gera?“
„Það sama og þú, drengur minn,“ segir biskup.
En drengurinn segir:
„Þá verður amma reið, því að ég er með koppinn.“
* Séra Bjarni Jónsson, lengi dómkirkjuprestur, tók upp á því, eftir að hann var hættur störfum, að heimsækja sakamenn í fangelsum bæjarins, tala um fyrir þeim og gefa þeim góð ráð til bættrar hegðunar og lífernis. Ekki fannst öllum sakamönnunum þetta þörf eða gagnleg lesning og einn þeirra einsetti sér að venja hann af áminningunum og sat fyrir honum á bak við hurð, þegar hann kom til fundar við þá. Þegar Bjarni stormaði á fundinn, aðeins of seinn, brá maðurinn fæti fyrir hann, svo að hann steypist fram yfir sig og rann á belgnum inn eftir gólfinu og inn í miðjan hópinn. Sakamennirnir biðu spenntir eftir viðbrögðum Bjarna, meðan hann reis á fætur, dustaði af hempunni rykið og hugsaði hvernig hann ætti að bregðast við.
Svo sagði hann:
,,Það var ekki annað en þetta, sem ég ætlaði að segja ykkur núna: Þótt maður hrasi í lífinu og detti, getur maður alltaf risið á fætur aftur.“
Svo gekk hann með reisn til baka, en fangarnir sátu eftir höggdofa. Flestir skildu það sem séra Bjarni hafði sagt og sumir tóku það til eftirbreytni.
* Séra Lárus Arnórsson, prestur í Miklabæ frá 1921 til æviloka 1962, sat við spilamennsku og drykkju á laugardagskveldi og fram eftir allri nóttu. Daginn eftir var messað og var presturinn valtur á fótum og þoka yfir andanum, þegar hann gekk upp að altarinu. Þar stóð hann drykklanga stund, án þess að segja nokkuð.
Meðhjálparinn þokar sér að presti og spyr:
,,Ætlar ekki presturinn að segja eitthvað?“
Prestur rankar við sér og segir stundar hátt:
,,Jú, ég segi grand.“
Skagfirskar skemmtisögur 5
Skagfirskar skemmtisögur koma núna út í fimmta sinn og sem fyrr er það Björn Jóhann Björnsson blaðamaður sem tekur sögurnar saman. Þær eru samanlagt orðnar vel á annað þúsund og hér koma nokkrar úr nýju bókinni:Guðjón Sigurðsson, lengi bakarameistari á Sauðárkróki, var léttur í lund og ekki hár í loftinu, eða 1,59 eins og hann sagði sjálfur.
Einhverju sinni mun hann hafa farið niður í kjallara í bakaríinu en rekið sig upp undir og meitt sig lítilsháttar á skallanum. Er hann kom upp strauk hann yfir höfuðið á sér, leit á blóðið og mælti:
„Mikil lifandis skelfing var þetta dásamlegt. Það eru mínar sælustu stundir þegar ég rek mig upp undir.“
* Eitt sinn gekk yfir landið skæð flensa sem manna í millum var gjarnan kölluð norræna flensan. Þá lágu heilu byggðarlögin í flensupest og fór Sauðárkrókur ekki varhluta af því.
Guðjón bakari átti erindi á bæjarskrifstofuna en þar voru bara tvær konur uppistandandi. Önnur spurði Guðjón:
„Hvernig er þetta með þig, hefur þú alveg sloppið við flensuna, Guðjón minn?“
„Já,“ svaraði hann að bragði, „hún liggur í 1 og 60.“
* Einhverju sinni sátu þeir á kaffistofunni á gömlu Steypustöðinni í lok vinnudags, frændurnir Pálmi Friðriksson, Pálmi Jónsson og Þórður Hansen. Flaska hafði verið opnuð og komið fram á kvöld þegar ófáar sögurnar höfðu fengið að flakka með viðeigandi hlátrasköllum.
Heyra þeir þá að einhver kemur upp stigann á háaloftið. Var þar mætt Edda Vilhelms, kona Pálma Jóns, heldur þung á brún og var greinilega farið að lengja eftir bónda sínum heim. Lét hún skammirnar dynja yfir Pálma Friðriks, yfirmanninn á staðnum, sem lét sér hvergi bregða. Seildist þá Edda í glasið hans og skvetti innihaldinu framan í hann með látum.
„Hvað er að þér kona?“ segir Pálmi Friðriks við Eddu en reynir að gera gott úr hlutunum. En Edda var ekki hætt og gerði sig líklega til að grípa um glasið hjá Þórði þegar hann stekkur til, grípur um hönd hennar og segir í bænartón:
„Eeeeertu ekki til í að nota vatn?“
* Sparisjóður Hólahrepps var með minnstu sparisjóðum landsins en vel rekinn, enda yfirbyggingin engin og lánveitingum stillt í hóf. Hörður Jónsson á Hofi var lengi sparisjóðsstjóri og sinnti embættinu af stakri samvisku meðfram bústörfum. Það mun hafa verið til siðs hjá Seðlabankanum að láta unga og óreynda sumarstarfsmenn hringja norður í Hof, helst í miðjum heyönnum, og reyna að ná tali af Herði. Einhvern veginn svona fóru þessi samtöl fram, en yfirleitt varð móðir Harðar fyrir svörum:
„Er þetta hjá Sparisjóði Hólahrepps?“
„Já, þetta er þar.“
„Er sparisjóðsstjórinn við?“
„Nei, hann er úti á túni.“
Gárungar meðal bankamanna höfðu á orði að samtölin hefðu verið góð myndlíking á því sem aflaga fór í bankahruninu, þó að Sparisjóður Hólahrepps hefði þar hvergi komið nærri, hvað þá Hörður á Hofi!
* Óskar Pétursson frá Álftagerði er ekki bara góður söngvari heldur einnig maður spaugsamur, eins og öllum er kunnugt. Einu sinni var hann spurður um söng sinn. Sagðist hann syngja mest við jarðarfarir, enda væri hann kallaður „hell singer“. Aðspurður hvort mikið væri að gera í söngnum svaraði Óskar:
„Ja, það er reytingur og verður áfram. Ég var uppi á elliheimili um daginn að kanna lagerstöðuna!“
* Bjarni Maronsson, sem starfar fyrir Landgræðsluna, reið um árið gamla leið yfir Öxarfjarðarheiðina, frá Þistilfirði yfir í Öxarfjörð, með nokkrum bændum báðum megin hennar. Á miðri leið var áð við uppþornaðan drullupoll, umlukinn leirflögum svo tæplega var forsvaranlegt að brynna þar hrossum. Eins og tíðkast í ferðum sem þessum var Bjarna sagt til um örnefni á leiðinni. Við tjörnina var stigið af baki og dásömuðu heimamenn umhverfið og ægifagurt landslagið. Einn ferðafélaganna bendir nokkuð upp með sér á forarpollinn og segir við Bjarna:
„Þetta heitir nú Fagratjörn.“
Bjarni horfir í kringum sig á ófrýnilegt moldarflagið, ræskir sig ögn og segir með hægð:
„Já, merkilegt að mér skyldi nú ekki hafa dottið það í hug.“