Þegar rætt er um tekjumöguleika ríkissjóðs standa ýmsir á öndinni og telja að hægt sé að stórauka skattheimtu með því að ráðast að þeim atvinnugreinum sem hagnýta auðlindir landsins. Er oftast í umræðunni látið að því liggja að fyrirtækin sem breyta landsins gæðum í fjármuni séu með einhverjum hætti að arðræna þjóðina um leið. Horft er framhjá þeim miklu jákvæðu efnahagslegu afleiðingum sem hagnýtingin skilar, jafnt í formi starfa og tekna af þeim sköttum sem jafnt eru lagðir á fyrrnefnd fyrirtæki og önnur sem í landinu starfa.
Þar er lausnarorðið „sameign þjóðarinnar“ og þannig reynt að höfða til þorra almennings um að ef ekki verði ráðist í stórfelldar skattahækkanir sé verið að hrifsa þessa miklu, en óskilgreindu, sameign úr höndum þjóðarinnar. Aldrei er því svarað hverju sameignin ætti að skila ef eigendur fyrirtækjanna sem hana hagnýta væru ekki tilbúnir að hætta tíma sínum, kröftum og fjármagni til að umbreyta jarðargæðum í verðmæti.
Ekki er um það deilt að hin mikla auðlind Íslands er náttúran, hvort sem litið er til landnýtingar og sjávarfangs sem haldið hefur lífi í þjóðinni, orkunnar í fallvötnum og jarðhita eða þeirrar einstæðu fegurðar sem draga mun hingað til landsins nærri tvær milljónir manna á næsta ári. En svo gerðist það í liðinni viku að sjónvarpskonu nokkurri varð það á að skella á skjái landsmanna, í umboði RÚV, einni af fjölmörgum náttúruperlum þjóðarinnar – einni merkilegri sameign.
Hvað gerðist þá? Þá risu upp sumir úr hópi þeirra sem ætíð tala um mikilvægi sameignar þjóðarinnar þegar skattaumræðan gerist skæð og hvað yfirborðskenndust. Þeir voru ósáttir við afhjúpun sjónvarpskonunnar fyrrnefndu og töldu ótækt að almenningur fengi að vita um þessa perlu, enda væri hann vís til að vilja njóta hennar í framhaldinu. Svo umfangsmikið var samsærið gegn þjóðinni og þeim rétti hennar til að njóta hinnar sameiginlegu auðlindar, að höfundur árbókar Ferðafélags Íslands, og forseti félagsins, ákvað í útgáfunni 2010 að geta ekki um perluna dýru. Ætli það leynist fleiri slíkar auðlindir í landinu sem þjóðin má ekki vita af?