86% nemenda í 10. bekk tóku þátt í PISA-könnuninni 2015, en í fyrri könnunum var hlutfallið um 80%, að sögn Almars M. Halldórssonar verkefnastjóra PISA hjá Menntamálastofnun. Á hinum Norðurlöndunum hefur þátttakan verið í kringum 90%.

86% nemenda í 10. bekk tóku þátt í PISA-könnuninni 2015, en í fyrri könnunum var hlutfallið um 80%, að sögn Almars M. Halldórssonar verkefnastjóra PISA hjá Menntamálastofnun. Á hinum Norðurlöndunum hefur þátttakan verið í kringum 90%. „Hér taka allir þátt og því erfiðara að halda utan um hópinn en í löndum þar sem 30 krakkar eru valdir úr hverjum skóla. Það er auðveldara að mæta í prófið þegar þú ert útvalinn en ekki þvingaður,“ segir Almar.

Ásamt Íslandi taka allir nemendur í Lúxemborg og Liechtenstein þátt en í öðrum löndum er 4000 nemenda handahófskennt úrtak í hverju landi.

Almar segir aðferðafræði PISA áreiðanlega og að hún geti ekki útskýrt lélega útkomu hér.

Árið 2009 var skoðað hvort íslenskir nemendur væru að sleppa fleiri spurningum en nemendur í öðrum löndum og það var ekki. Þá hafi verið skoðað hvort mikið væri um „bullsvör“ og að þau hafi verið mjög fá. Kannanir hafi sýnt að meirihluti nemenda leggi sig fram í prófinu og það hlutfall sé svipað hér og annarsstaðar.

Könnun var í fyrsta skipti tekin á tölvu í fyrra og gæti það haft lítilsháttar áhrif á niðurstöðurnar.