Frumbýli Hús Finnjóns Mósessonar um 1947.
Frumbýli Hús Finnjóns Mósessonar um 1947. — Ljósmynd/Leifur Reynisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í bókinni Landnemar í Kópavogi rekur Leifur Reynisson sögu frumbyggja Kópavogs á Digraneshálsi um miðja síðustu öld.

Í bókinni Landnemar í Kópavogi rekur Leifur Reynisson sögu frumbyggja Kópavogs á Digraneshálsi um miðja síðustu öld. Sagan er ekki síst fjölskyldusaga bræðranna Finnjóns og Sveins Mósessona og hvernig daglegt líf breyttist á þegar Kópavogur þróaðist úr sveitarfélagi í annan stærsta kaupstað landsins.

Tveir bræður

Sveinn var á gangi um götur bæjarins þegar Finnjón bróðir hans birtist skyndilega á reiðhjóli og hafði hann fest skóflu við hjól sitt. Þetta var áður en Reykjavík þandist í úthverfin og því fóru flestir gangandi eða hjólandi um bæinn. Hitt var sjaldgæfara að menn hefðu skóflu meðferðis – sérstaklega væru þeir á hjóli. Sveinn tók bróður sinn tali og spurði frétta. Sagðist Finnjón vera á leið í Fossvoginn þar sem hann hefði orðið sér úti um landspildu. Hugðist hann koma sér þar fyrir, þó afskekkt væri fyrir mann sem þurfti að sækja mestalla sína vinnu í bæinn. Þó eins væri ástatt um Svein hugsaði hann sig ekki um tvisvar heldur sagði að bragði: „Fyrst svo er þá geri ég það líka“. Leið ekki á löngu þar til Sveinn dró sjálfur fram hjól sitt og skóflu – og lagði leið sína suður í Fossvog. Þeir bræður áttu eftir að fara margar slíkar ferðir með alls kyns verkfæri og tól enda var ærið verk að ryðja landið og koma sér þar upp húsi.

Finnjón og Sveinn Mósessynir voru vestan úr Dýrafirði. Þeir fluttust suður í kringum 1920 en þá þegar voru menn teknir að yfirgefa landsbyggðina í von um betra líf í höfuðstaðnum. En atvinna var stopul og húsaskjól af skornum skammti. Byggingarlóðir fengust varla nema fyrir klíkuskap og leiguhúsnæði var dýrt og ótryggt. Bræðurnir voru stoltir og lögðu sig alla fram um að verða sem sjálfstæðastir. Þeir voru af fátækum bændum og sjómönnum komnir og vissu hvað það þýddi að búa við húsbóndavald annarra. Þeir einsettu sér að starfa á eigin vegum og koma sér upp sínum eigin húsakynnum. Þeir voru örugglega ekki einir um það. Þorri landsmanna kannaðist við ömurleika fátæktarinnar og þá frelsisskerðingu sem hún hafði í för með sér. Margir voru tilbúnir að leggja mikið á sig fyrir efnalegt- og félagslegt sjálfstæði. Flestir byrjuðu nánast með tvær hendur tómar en með dugnaði og áræði náðu margir að koma fótunum vel undir sig.

Nokkur aldursmunur var með þeim bræðrum. Finnjón var fæddur árið 1895 en Sveinn leit dagsins ljós árið 1907 og var hann yngstur sex systkina. Þrjú systkini voru látin þegar þeir bræður hófu landnám sitt í Kópavogi og það fjórða hafði flust til Kanada löngu áður og kom aldrei til landsins aftur. Þeir voru því í raun aðeins tveir eftir bræðurnir en leið þeirra lá að mestu saman meðan báðir lifðu. Lífið hafði að mörgu leyti leikið fjölskylduna grátt og hafði það eflaust áhrif á samheldni þeirra. Velferðarsamfélagið var rétt að stíga sín fyrstu skref og þau viðhorf voru sterk að hver ætti að standa á eigin fótum og bera ábyrgð á sjálfum sér. Samhjálp og persónuleg tengsl höfðu mikið að segja og því skipti það þá bræður miklu máli að eiga hvorn annan að.

Finnjón hóf málaranám í Reykjavík árið 1918 og átti Sveinn eftir að njóta leiðsagnar hans í þeirri iðn. Sveinn bjó þá enn fyrir vestan ásamt foreldrum sínum en þau fluttu öll suður árið 1923. Finnjón hafði kennt bróður sínum nokkur grunnatriði í heimsóknum sínum vestur en Sveinn var þá á unglingsaldri. Sveinn hélt áfram að nema af bróður sínum eftir að suður var komið og leið ekki á löngu þar til hann fór að starfa við fagið. Finnjón og Sveinn urðu báðir málarameistarar og fengust þeir við margvísleg málarastörf. Þeir voru í senn listrænir og góðir handverksmenn enda tóku þeir iðulega að sér vandasöm verkefni. Þeir voru mjög færir í að oðra sem er vandmeðfarin tækni þar sem líkt er eftir viðar- eða marmaraáferð. Þar fengu þeir útrás fyrir listræna hæfileika sína en í stopulum frístundum áttu þeir einnig til að teikna og mála.

Finnjón setti upp húsgagnamálarastofu árið 1930 og var Sveinn í læri hjá honum. Árið 1934 hóf Sveinn samstarf við tvo smiði sem fengust við að smíða og gera við húsgögn. Sveinn sá um að mála húsgögnin en hann var einnig liðtækur við smíðarnar þegar á þurfti að halda. Þeir komu sér upp verkstæði og stofnuðu verslun sem bar heitið Ódýra húsgagnabúðin. Samstarfinu lauk árið 1941 þegar smiðirnir fengu vinnu hjá hernum en Sveinn snéri sér aftur að húsamálun.

Bræðurnir voru kvæntir menn þegar þeir afréðu að verða sér úti um samastað í Kópavogi árið 1937. Eiginkona Finnjóns hét Ingibjörg Bjarnadóttir og áttu þau tvo syni, Bjarna og Þorleif. Sveinn var kvæntur Guðdísi Guðmundsdóttur en þeirra börn fæddust eftir að þau fluttu í Kópavoginn. Ingibjörg var úr Dýrafirði en Guðdís hafði alist upp í Garðinum og í Hafnarfirði. Öll voru þau vön flutningum á milli ótryggra húsakynna. Það var löngu orðið tímabært að finna sér öruggan samastað sem væri þeirra eigin. Slíkt var þó ekki auðgert fyrir alþýðumenn sem í ofanálag var utanbæjarfólk. Án sambanda innan flokks og bæjarkerfis var enga lóð að hafa og án tengsla við fjármálamenn var engin lán að fá. Þeim bauðst að vísu að eignast íbúð í fjölbýlishúsi við Grettisgötu en höfnuðu því. Bræðurnir voru úr sveit og vildu hafa rýmra í kringum sig.

Lóðaúthlutanir í Kópavogi komu sem himnasending fyrir þá bræður. Þeir þurftu vissulega að hafa töluvert fyrir því að koma sér fyrir og ekki var hlaupið að því að fara til vinnu eða afla fanga fyrstu ár búsetunnar. En ávinningurinn var ótvíræður. Þeir höfðu nóg landrými og gátu komið sér fyrir eftir efnum og ástæðum. Fjölskyldurnar voru lausar við þröngbýli, hávaða og ryk bæjarins. Bræðurnir voru aftur komnir út í sveit þar sem víðerni, kyrrð og frelsiskennd sveif yfir vötnum. Hér gátu þeir búið út af fyrir sig án afskipta annarra. Þeir voru húsbændur á eigin heimili og voru staðráðnir í að skapa fjölskyldum sínum örugga umgjörð.

Nýbýli og blettir

Kreppan sem hófst 1930 skammtaði þjóðinni kröpp kjör þar til seinni heimsstyrjöldin kom með velmegun til landsins með hernámi Breta árið 1940. Í Reykjavík, sem annars staðar, áttu margir fullt í fangi með að sjá sér farborða. Eitt af úrræðum ríkisvaldsins var að deila út landssvæðum til ræktunar nærri þéttbýliskjörnum víða um land. Suður af Reykjavík var tveimur ríkisjörðum úthlutað, fyrst Digranesi og stuttu síðar Kópavogi. Það var á tvennan máta, annars vegar var hluta landsins skipt niður í nýbýli til ábúðar. Hins vegar var úthlutað smærri ræktunarblettum. Með þeim átti að auðvelda fólki lífsbaráttuna með því að gera því kleift að stunda jarðrækt meðfram öðrum störfum og voru þeir upphaflega ekki ætlaðir til fastrar búsetu þótt mál hafi síðar þróast á þann veg. Bræðurnir fengu úthlutað blettum úr landi Digraness. Finnjón fékk blett við Nýbýlaveg en Sveinn uppi á hæðinni rétt austur af Álfhólnum.

Nauðsynlegt var að greiða fyrir samgöngum og hófst vegagerð árið 1935 með lagningu Nýbýlavegar, sem lá á milli nýbýlanna og blettanna, en þeim framkvæmdum lauk ári síðar. Voru nýbýlin norðan megin vegar en blettirnir sunnan megin. Kársnesbraut var síðan lögð í beinu framhaldi af Nýbýlavegi og að því loknu var hafist handa við Álfhólsveg. Vegna fjárskorts náði sá vegur ekki lengra en austur að Álfhól. Á sama tíma var unnið við Hlíðarveg og hluta Digranesvegar. Allir voru vegirnir lagðir í atvinnubótavinnu, en sú vinna lagðist niður með hernáminu og lauk vegagerð þar með í bili í Kópavogi.

Úthlutanir áttu sér stað á árunum 1935-1937 og síðan aftur 1942. Fyrri úthlutunin var úr landi Digraness og sú síðari úr landi Kópavogs, en þeir blettir voru nokkru minni. Á þeim árum var um 10 ferkílómetra svæði á milli Fossvogs og Kópavogs ráðstafað og voru ræktunarlöndin á fjórða hundrað. Þeir sem hrepptu hnossið máttu teljast heppnir enda sóttu mun fleiri um en fengu. Nýbýlin voru leigð til 75 ára og skyldi ársleigan vera 5% af matsverði þeirra. Blettirnir voru leigðir á 3% af matsverði en leigutími þeirra var ótímabundinn. Annað þurfti ekki að greiða fyrir lóðirnar.

Hús tóku að rísa á nýbýlunum árið 1936 og fluttu margir inn ári síðar. Bústofninn var einkum kýr, hross og hænur en annað dýrahald var smærra í sniðum. Töluverð garðyrkja fór fram á nýbýlunum og einnig á blettunum. Nýbýlabændur nutu góðs af nálægðinni við Reykjavík þar sem auðvelt var að koma afurðum á markað.

Blettirnir úr landi Digraness voru einn hektari og ætlaðir til ræktunar. Leigutökum bar að girða þá af og rækta upp innan 10 ára. Mönnum leyfðist að koma sér upp litlu afdrepi eða sumarhúsum en ekki var ætlast til að fólk hefði þar fasta búsetu. Auðvelt er að ímynda sér að margir sem nældu sér í blett hafi ætlað að koma sér þar fyrir til frambúðar hvað sem öllum lagagreinum leið. Þannig var því háttað með þá bræður Finnjón og Svein. Þeir, líkt og margir aðrir frumbyggjar Kópavogs, sættu sig ekki við það ófremdarástand sem ríkti í húsnæðismálum í Reykjavík og létu sjálfsbjargarviðleitnina ráða för.