Mikil gróska er búin að vera í kvikmyndaiðnaðinum á Íslandi síðastliðin ár en fyrirtækjum í framleiðslu á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni hefur fjölgað um 77% á sjö árum. Veltan í greininni hefur aukist umtalsvert og nam 34 milljörðum árið 2014.

Mikil gróska er búin að vera í kvikmyndaiðnaðinum á Íslandi síðastliðin ár en fyrirtækjum í framleiðslu á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni hefur fjölgað um 77% á sjö árum. Veltan í greininni hefur aukist umtalsvert og nam 34 milljörðum árið 2014. Velta í kvikmyndaframleiðslu hefur meira en tvöfaldast frá árinu 2008 og nam 20,1 milljarði árið 2014 og stefnir veltan á árinu 2016 yfir 24,4 milljarða, samkvæmt upplýsingum frá Samtökum kvikmyndaframleiðenda, SÍK. Á árinu 2015 voru rúmlega 428 milljónir króna endurgreiddar vegna erlendra kvikmynda sem teknar voru á Íslandi, en það er meira en helmingur af heildarendurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar á Íslandi á árinu. Stjórnvöld hafa ákveðið að halda þessum stuðningi áfram en síðastliðið sumar var samþykkt að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 20% í 25%.

Mikið umfang fylgir hverju erlendu verkefni

Hvert og eitt verkefni er mjög umfangsmikið. Kvikmyndafyrirtækin koma venjulega ári áður en tökur hefjast til að skoða aðstæður. Í kjölfarið af því er búin til fjárhagsáætlun. Í tengslum við hvert verkefni þarf að kaupa mikla þjónustu af íslenskum aðilum og því koma miklir peningar inn í þjóðarbúið með sérhverju kvikmyndaverkefni sem ákveðið er að taka hér á landi. Sem dæmi um umfangið má nefna að í stóru nýlegu kvikmyndaverkefni sem Truenorth hélt utan um voru pantaðar 17.000 hótelnætur. Panta þurfti 300 sæti hjá Icelandair og 400 sæti hjá Flugfélagi Íslands. Leigja þurfti fjölda bíla og nam heildarfjöldi leigudaga 4.500. Leigja þurfti mikið af búnaði og tækjum en heildarfjöldi leigudaga fyrir tækjabúnað var 3.500. Launakostnaður nam 360 milljónum króna og dagpeningar og matur á tökustað nam 190 milljónum króna. Alls vann íslenskt starfsfólk 6.000 dagsverk við tökur á þessu eina verkefni.