Kristján Eldjárn hafði lög að mæla um mikilvægi kristinnar trúar og kirkju

Síðastliðinn þriðjudag, þegar Alþingi var sett við heldur óvenjulegar aðstæður, voru eitt hundrað ár frá því að Kristján Eldjárn fæddist. Þessara tímamóta var minnst með ýmsum hætti eins og sjálfsagt var, til dæmis í fróðlegri grein sem Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, ritaði fyrir Morgunblaðið af þessu tilefni.

Séra Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur minntist tímamótanna einnig í predikun við þingsetningarathöfn þegar hann rifjaði upp orð sem þessi ástsæli fyrrverandi forseti mælti í stólnum í Tjarnarkirkju í Svarfaðardal, eftir að hann lét af embætti:

„Ég hef stundum fengið að heyra það á minni ævi, að ég sé ekki mikill kirkjunnar maður og fannst sumum það nokkur ljóður á ráði mínu að ég færi ekki mikið með guðsorð í ræðum sem ég hélt meðan ég var forseti. Satt mun það vera, og víst get ég ekki hrósað mér af því að ég sé kirkjurækinn maður í venjulegum skilningi þess orðs. En ég vona að það sé ekki hræsni þegar ég segi að það er trú og sannfæring okkar allra, að við Íslendingar, hvort sem við erum veikari eða sterkari í trúnni, ættum að lofa forsjónina fyrir það að við skulum tilheyra hinum kristna hluta mannkynsins í þessum ekki allt of góða heimi, að við búum við hugsunarhátt, þjóðlíf og menningu sem um aldir hefur mótast af kristinni trú og kristinni kirkju. Þetta eru dásamleg forréttindi, sem aðeins nokkur hluti jarðarbúa nýtur. Þetta held ég að hver íslenskur maður ætti að gera sér ljóst og íhuga í alvöru.“

Um þetta sagði séra Hjálmar: „Góðir vinir, ég held við eigum að halda áfram að gera okkur þetta ljóst. Að sjálfsögðu ekki með því að ganga á rétt annarra, nýrra Íslendinga eða þeirra sem aðhyllast önnur eða engin trúarbrögð. En það er engum gerður greiði með því að við verðum sögulaus, hefðalaus, trúlaus. Ekkert samfélag batnar við það.“

Þó að langflestir landsmenn beri hlýjan hug til kirkjunnar og kristinnar trúar hefur í seinni tíð færst í vöxt að einstaka maður eða félagsskapur hnýti í kirkjuna og reyni að bregða fyrir hana fæti. Þetta er mjög miður. Kirkjan er ekki aðeins samfélag þeirra sem vilja iðka sína trú og sækja sér trúarlega þjónustu, hún er einnig mikilvæg stoð í samfélaginu, samtvinnuð sögu þjóðarinnar, venjum og hefðum. Eins og Kristján Eldjárn forseti benti á eru þetta forréttindi sem landsmenn búa við, og þau er eðlilegt að virða og veita stuðning.