„Þekking á markaðinum er mjög mikilvæg, og að geta fundið þar gat þar sem maður getur boðið uppá eitthvað nýtt,“ segir Katrín Alda.
„Þekking á markaðinum er mjög mikilvæg, og að geta fundið þar gat þar sem maður getur boðið uppá eitthvað nýtt,“ segir Katrín Alda.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Skómerkinu Kalda hefur tekist að koma sér á framfæri í tískupressunni og pantanir farnar að berast frá mikilvægum verslunum.

Þeir eru eflaust margir sem ganga með þann draum í maganum að láta að sér kveða á tískusviðinu. Ekki er nóg með að tískugeirinn bjóði upp á glamúr og glæsileika heldur getur samspil fallegrar hönnunar og góðrar markaðssetningar fært fólki gull og græna skóga.

Katrín Alda Rafnsdóttir gæti verið á góðri leið með að láta drauminn rætast. Hún er stofnandi, stjórnandi og hönnuður merkisins Kalda sem sérhæfir sig í skófatnaði fyirr konur.

„Þetta byrjaði með því að ég og systir mín Rebekka opnuðum búð á Laugaveginum í miðju hruni, enda var verslunarplássið ódýrt á þeim tíma. Þar tókum við til við að hanna okkar eigin fatnað, og í fjögur ár starfræktum við fatamerkið Kalda í samnefndri verslun,“ segir Katrín. „Það gekk ágætlega, og meðal annars tókst okkur að gera góðan samning við verslunina Liberty í London. Á endanum varð þó úr að breyta um stefnu og leggja áherslu á aðeins einn vöruflokk frekar en að vera með breiða línu af fatnaði og skóm. Síðasta árið hef ég því verið að endurkynna Kalda sem skómerki.

Betra að vera sérhæfður

Katrín er ekki lærður hönnuður en hún lauk námi í tískustjórnun við London College of Fashion. Hún segir að með því að leggja áherslu á einn vöruflokk standi Kalda betur að vígi, og veiti ekki af enda samkeppnin í tískuheiminum gífurlega hörð. „Það er öflugur leikur að velja sér einhverja eina vöru og vera mjög sterkur í henni til að geta komið sér á framfæri.“

Fyrsta skólína Katrínar var kynnt á tískuvikunni í París í sumar, með stuðningi Hönnunarmiðstöðvar og Impru. „Við höfum lagt ofuráherslu á að fá sem mesta umfjöllun í tískufjölmiðlum erlendis enda skiptir þess háttar sýnileiki miklu máli fyrir innkaupastjóra tískuverslananna. Við staðsetjum okkur nokkurn veginn á miðjum markaðinum, með nútímalegum skóm sem kalla mætti „statement“-skó. Við viljum að það komi skýrt fram í tískupressunni að við erum íslenskt fyrirtæki og látum upprunann skína í gegn t.d. með því að nota laxaroð í suma skóna,“ segir Katrín og upplýsir að þegar hafi náðst samningar við eina stærstu netverslun Bandaríkjanna, Shopbob, og fleiri samningar séu í pípunum.

Að hafa trú á sjálfum sér

Að geta hannað fallega skó er aðeins lítill hluti af því að byggja upp fyrirtæki eins og Kalda. Þegar Katrín er spurð hvað reynsla síðustu ára hafi kennt henni segist hún geta skrifað heila bók um þær áskoranir sem tískufrömuður þarf að yfirstíga. „Þekking á markaðinum er mjög mikilvæg, og að geta fundið þar gat þar sem maður getur boðið uppá eitthvað nýtt, og gert það betur en keppinautarnir. En frumkvöðull á tískusviðinu þarf líka að geta bæði leitað uppi og hlustað á góð ráð fólks sem veit sínu viti, en á sama tíma að hafa trú á eigin hugmyndum og stefnu.

Katrín segir að tískustjórnunarnámið hafi hjálpað, bæði með því að gefa henni góðan þekkingargrunn og einnig aðgang að góðu tengslaneti. „Samnemendur mínir og kunningjar úr náminu eru í dag upp til hópa komnir nokkuð vel á veg í sínum störfum og mörg þeirra innkaupastjórar eða í vinnu hjá tískupressunni. Þetta er fólk sem hefur veitt mér mjög góð ráð og þekkir fólk sem getur látið hlutina gerast.“

Vandasamt ferli

Áður en Katrín getur látið sér detta í hug að leita að kaupendum verður hún að tryggja að framleiðslugetan sé til staðar. Eftir langa og strembna leit fann Katrín fyrirtæki í Portúgal sem smíðar skóna. „Ég heimsótti nokkra staði, kíkti í verksmiðjurnar og ræddi við fjölda hönnuða um þeirra reynslu. Maður verður að vera alveg 100% viss með framleiðsluhliðina áður en haldið er af stað með að kynna og selja því ef framleiðslan og gæðin klikka þá fær maður ekki annað tækifæri hjá innkaupastjórunum.“

Ferlið byrjar þannig að Katrín sendir tækniteikningar til portúgalska skósmiðsins og hann býr síðan til frumgerð af skónum. Mikil nákvæmni er í skóhönnun og oft þarf að fara í gegnum ferlið 2 - 3 sinnum til að ná skónum alveg réttum.

Eftir að hafa hannað skóna, látið gera fyrstu sýniseintökin, tryggt framleiðslugetuna, kynnt vöruna á tískusýningum og fengið pantanir þarf Kalda að glíma við erfiða sjóðstreymisáskorun. „Stóru búðirnar borga hönnuðum alla jafna ekki fyrr en 30 dögum eftir afhendingu vörunnar, og getur verið stór biti fyrir ungan hönnuð að halda sjóðstreyminu gangandi þann tíma sem líður frá því framleiðandanum er borgað og þar til greiðslan berst frá verslununum.“

Gangi allt að óskum má hafa ágætis hagnað af hverju seldu skópari en Katrín segir þumalputtaregluna að verðið á skónum út úr búð sé um þrefalt hærra en heildsöluverðið.

Frá heildsöluverðinu dregst svo framleiðslukostnaðurinn og önnur útgjöld. „Það er mikið lagt undir, en líka mikið upp úr þessu að hafa ef vel selst. Eru til dæmi af tískumerkjum sem hefur orðið mikið ágengt á skömmum tíma og jafnvel á aðeins tveimur eða þremur árum orðið að nokkuð stórum fyrirtækjum.“