Guðmundur Ingimundarson fæddist í Reykjavík 20. nóvember 1943. Hann lést 15. nóvember 2016.
Foreldrar Guðmundar voru Ingimundur Kristinn Gestsson frá Reykjahlíð í Reykjavík og Kristín Guðmundsdóttir frá Gerðum í Garði.
Árið 1968 kvæntist Guðmundur, Rósu Einarsdóttur. Foreldrar Rósu voru Einar Nikulásson og Kristín Þórarinsdóttir frá Stóra-Hrauni.
Guðmundur og Rósa eignuðust þrjú börn. Þau eru: 1) Einar Þór Guðmundsson, f. 1966. Sonur Einars er Óðinn Einarsson, f. 2013. 2) Ingimundur Kristinn Guðmundsson, f. 1970. Eiginkona hans er Landysh Gilfanova, f. 1973. Ingimundur á þrjú börn, Rakel Rósu Ingimundardóttur, f. 1992, barnsmóðir Björk Agnarsdóttir, Adelyu Gilfanova, f. 1999, og Diljá Líf Ingimundardóttur, f. 2009. 3) Kristín Guðmundsdóttir, f. 1978. Eiginmaður hennar er Steindór Aðalsteinsson, f. 1978, og eiga þau þrjú börn, Emblu Steindórsdóttur, f. 2005, Telmu Steinsdórsdóttur, f. 2005, og Dag Steindórsson, f. 2012.
Guðmundur útskrifaðist sem stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og fór síðan í viðskiptafræðinám í háskólanum. Hann byrjaði ungur að vinna með skólanum, en 12 ára starfaði hann sem sendill hjá Sölumiðstöðinni. Í gegnum tíðina starfaði hann við daglegan rekstur ýmissa fyrirtækja, bæði síns eigin og annarra, m.a. hjá BÁ-húsgögnum, EN-lömpum, Lúmex o.fl. Síðustu árin rak hann og keyrði leigubíl hjá bifreiðastöðinni Hreyfli/Bæjarleiðum.
Útför Guðmundar fer fram frá Grensáskirkju í dag, 8. desember 2016, kl. 13.
Æi elsku pabbi, það er svo margt sem ég þarf að segja þér, svo margt sem við áttum eftir að spjalla um og gera saman. Ég veit ekki alveg hvenær ég mun átta mig á því að þé sért farinn, þetta er alveg óbærileg hugsun. En sem betur fer áttum við ótrúlega margar minningar og gerðum ótrúlegustu hluti saman. Það er svo dýrmætt að eiga t.d. allar minningarnar úr þessum sex Flórídaferðum sem þú og mamma og mín fjölskylda höfum farið saman í. Þú átt heiðurinn af því að ég hafi farið í íþróttir. Ég byrjaði á að fara með þér á badmintonæfingu í Valsheimilinu fyrir tæpum 30 árum og á meðan ég var að bíða eftir þér skaust ég á fótboltaæfingu sem var fyrir utan og tilkynnti þér svo að ég væri komin í liðið og ætti að fara að keppa daginn eftir. Þú fylgdir mér eftir í fótboltanum í Val og ég man einu sinni þegar við vorum að keppa á gull og silfurmótinu í Kópavogi, þá komst þú að horfa og gast svo tekið okkur allar á stóra 14 manna bílnum þínum heim þar sem mamma beið með vöfflur. Þú fórst svo með mig á fyrstu handboltaæfinguna þegar ég var rétt tæplega 12 ára og hefur fylgt mér alla tíð eftir það, fórst með mér allt sem þú gast í sambandi við handboltann, Húsavík, Vestmannaeyjar, á Ítalíu þegar landsliðið var þar og toppaðir þetta svo alveg þegar þú komast með mér í fyrra í æfingaferð hjá kvenna- og karlaliði Vals til Spánar, ég þá 37 ára, þetta fannst nú öllum mjög merkilegt. Þú varst nú alveg ótrúlegur maður þó að lífið hafi ekki alltaf verið dans á rósum. Þú gerðir allt fyrir alla og reddaðir alltaf því sem þurfti. Þú hefur reddað okkur systkinunum vinnu, lagað bílana mína, fjármálin ræddum við mikið og svo auðvitað bara allt milli himins og jarðar. Við fórum ósjaldan saman í hádegismat og var það oftast toppurinn á deginum ef þú áttir „lunch date“ með einhverjum úr fjölskyldunni eða góðum vinum. Þú varst alltaf mjög mikill bílaáhugamaður og áttir yfirleitt síðasta orðið ef maður þurfti að kaupa sér bíl. Barnabörnin áttu svo hug þinn allan og varstu alltaf tilbúinn í að skutlast ef það þurfti, og fannst Telmu og Emblu mjög mikið sport að vera alltaf sóttar á leigubíl, voru bara með sinn eigin einkaleigubílstjóra.
Elsku pabbi, ég vona innilega að þér líði vel, mun sakna þín að eilífu.
Kveðja, þín pabbastelpa,
Kristín.
Þórður Guðmundsson.
Ég trúði ekki því sem ég heyrði, þetta bara gat ekki verið satt. Svo auðvelt er það, þegar maður býr erlendis, að loka á og kunna að neita því að þetta hafi gerst. En þetta er staðreynd.
Í september síðastliðnum fengum við að hitta hann í síðasta skipti, þegar stórfjölskyldan fór í ferðalag til Flórída. Það var gríðarlega mikilvægt fyrir okkar að fá þann tíma með honum, þetta er tími sem við munum hafa í hjörtum okkar til allrar framtíðar. Þetta var í síðasta skipti sem við hittum hann.
Þar lék hann á als oddi, fór með okkur í skemmtigarð þar sem hann fór í öll tækin, tók virkan þátt í afmæli Diljár Lífar og var styttan í smá drama sem gerðist í miðri ferð.
Og þannig var hann, alltaf tilbúinn að hjálpa, þegar einhvern vantaði hjálp. Hann þekkti svo marga og hafði slíkan eiginleika að hann gat talað við fólk og fengið það til að skipta um skoðun eða fara hans leið.
Eitt sinn, þegar við Lana vorum að sækja um ríkisborgararétt fyrir Lönu, stóðum við niðri í innanríkisráðuneyti að leggja inn umsókn. Stúlkan í afgreiðslunni var ekki alveg á því að taka við umsókninni og ég var að gefast upp, vissi ekki hvað ég átti að segja eða gera. Pabbi byrjaði þá að tala við hana og á ótrúlegan hátt samþykkti hún að taka við umsókninni. Hann fann réttu orðin til að segja, án þess að stúlkan fengi þá tilfinningu að hún væri að gefa eftir.
Pabbi, ásamt afa Ingimundi, kynnti mig fyrir pólitíkinni. Þegar ég var krakki hjálpaði ég við kosningar, þegar Sjálfstæðisflokkurinn var að taka saman hverjir hefðu kosið. Í gegnum þetta lærði ég á pólitík og fór að skilja betur út á hvað hún gekk. Pabbi hjálpaði mér svo í seinni tíð að fá nægar undirskriftir þannig að ég gæti boðið mig fram í prófkjöri. Ég náði reyndar ekki langt, en ég er viss um að ef hann hefði einhvern tíma boðið sig fram, hefði hann unnið.
Við rökræddum pólitík mikið. Þrátt fyrir að við værum í grundvallaratriðum sammála, þá voru einstök atriði sem við vorum ekki sammála um. Það voru skemmtilegar umræður, sérstaklega þegar við ræddum um opnun samfélagsins og tjáningarfrelsi.
Pabbi var úrræðagóður maður. Hvað sem bjátaði á hafði hann einfaldar lausnir á öllu. Hann var á mörgum sviðum mín fyrirmynd. Ég lærði mikið af honum og mun alltaf hafa þann lærdóm í hjarta mér. Hann var góður maður og gjafmildur.
Hann var góður afi og hringdi reglulega til að tala við Diljá Líf. Henni fannst alltaf gaman að tala við afa. Og hún man eftir afa, þó að hún hafi ekki verið oft með honum. Hún sagði mér nýverið, eftir að hún vissi að hann væri dáinn: „Veistu pabbi, mig dreymir stundum Guðmund afa. Það var svo gaman með honum“.
Hann hefur í raun kennt mér allt sem gerir mig að góðum manni, föður og vonandi síðar meir afa. En nú er hann dáinn.
Hvíl í friði.
Ingimundur K. Guðmundsson og fjölskylda.
Við syrgjum lát Guðmundar Ingimundarsonar.
Regina, Martin
og fjölskylda.