Krossbönd Haraldur Björn Sigurðsson stóð í ströngu við mælingar þegar Morgunblaðið kom við hjá honum í gær.
Krossbönd Haraldur Björn Sigurðsson stóð í ströngu við mælingar þegar Morgunblaðið kom við hjá honum í gær. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Krossbandaslit Kristján Jónsson kris@mbl.is Íþróttaunnendur kannast við að lesa reglulega um krossbandaslit afreksíþróttafólks á síðum Morgunblaðsins eða fréttaflutning af íþróttafólki sem er byrjað að beita sér á ný eftir aðgerðir vegna...

Krossbandaslit

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Íþróttaunnendur kannast við að lesa reglulega um krossbandaslit afreksíþróttafólks á síðum Morgunblaðsins eða fréttaflutning af íþróttafólki sem er byrjað að beita sér á ný eftir aðgerðir vegna krossbandaslita. Haraldur Björn Sigurðsson íþróttasjúkraþjálfari tók þá ákvörðun að skoða krossbandaslit sérstaklega í doktorsnámi sínu og vinnur nú að umfangsmikilli rannsókn undir handleiðslu dr. Kristínar Briem, en Morgunblaðið ræddi við hana um rannsóknir hennar fyrir nokkrum árum.

„Mikilvægt er að reyna að koma í veg fyrir þessi meiðsli vegna þess að þau hafa svo miklar afleiðingar fyrir einstaklinginn til lengri tíma. Þessi meiðsli eru afdrifarík og í flestum tilfellum eiga þau sér stað þrátt fyrir að íþróttamaður lendi ekki í stórslysi,“ sagði Haraldur þegar Morgunblaðið innti hann eftir því hvers vegna hann hefði kosið að taka krossbandaslit fyrir í sínu doktorsnámi.

„Manni finnst að það ætti að vera hægt að finna vinkil til að koma í veg fyrir þessi meiðsli en það hefur samt ekki gengið neitt sérstaklega vel hingað til. Nálgun á rannsóknir á áhættuþáttum krossbandaslita hafa hingað til verið full einfaldar að mínu mati. Þar hafa vissar breytur verið skoðaðar en ekki endilega út frá því hvernig slitin verða. Fólk hefur ekki verið mælt aftur til að sjá hvort hreyfingarnar séu eins, til dæmis fyrir og eftir kynþroska. Auðveldara er að halda utan um slíka hluti hérna á Íslandi og fá fólk til að koma aftur og aftur í mælingu. Þrátt fyrir að krossbandaslit hafi verið mikið rannsökuð er margt óskoðað og ógert, sem gerir þetta mjög spennandi fyrir mig.“

Seinni hluta mælinga

Haraldur og Kristín eru að kalla aftur inn íþróttafólk sem var rannsakað af Kristínu áður en það fóru á kynþroskaskeiðið fyrir nokkrum árum. Voru það krakkar sem stunda íþróttir og voru á aldrinum 9-12 ára. Um rannsóknina sagði Kristín meðal annars við Morgunblaðið hinn 5. desember 2012: „Þekkt er þegar horft er á hvernig krakkar hreyfa sig fyrir kynþroska að þá er ekki mikill munur á því hvernig kynin beita sér. Þegar hins vegar er um að ræða stálpaða unglinga og fullorðna þá sést glögglega munur á því hvernig karlar og konur hreyfa sig og virkja vöðvana, t.d. þegar þreyta spilar inn í.“

Haraldur er einnig að fara í gegnum gögn frá þeim tíma, en vinnan sem fyrir liggur mun taka mánuði og ár. „Þetta er gríðarlegt gagnasafn og langt verk að vinna úr því. En á sama tíma erum við að kalla sömu einstaklinga inn til okkar og mæla þá,“ sagði Haraldur.

Líkur á því að slíta aftur

Fyrir leikmann virðast krossbandaslit vera býsna algeng í íþróttalífinu hérlendis. Einnig er nokkuð um að afreksíþróttafólk lendi í því að slíta oftar en einu sinni á ferlinum.

„Ef maður hefur einu sinni lent í krossbandsslitum er langtum algengara að það gerist aftur. Ef áhættuþættirnir sem valda sliti eru til staðar hjá manni eru þeir yfirleitt enn til staðar eftir endurhæfinguna. Rannsóknir á hreyfimynstri íþróttafólks sýna að þau sem slíta krossband eru ekki verr stödd hvað varðar fótinn þar sem krossbandið slitnar. Báðir fæturnir eru hins vegar lakari gagnvart ákveðnum hreyfingum heldur en hjá hinum almenna íþróttamanni. Þá er ég að tala um hreyfingar sem valda álagi á krossbandið. Þegar fólk kemur úr endurhæfingunni eiga hreyfingar að vera betri, svo framarlega sem vel tekst til, en henni þarf hins vegar að halda við og algengt er að fólk fari aftur í gamla farið,“ útskýrði Haraldur.

Ótímabærar ákvarðanir

Hann segir dæmi um að íþróttafólk gefi sér ekki allan þann tíma sem þarf í endurhæfinguna. Of algengt sé að fólk taki mið af tímanum sem fer í endurhæfinguna frekar en að meta stöðuna og getuna til að fara aftur á fulla ferð.

„Algengt er að fólk snúi of snemma aftur í keppni en þar getur margt komið til. Fólk sem er á launaskrá sem íþróttafólk finnur ef til vill fyrir pressu, auk þess sem mörgum þykir einfaldlega leiðinlegt að vera á hliðarlínunni. Hjá afreksíþróttafólki er ákveðið viðmið að endurhæfingin geti tekið 6-12 mánuði. Hjá yngri krökkum ætti ferlið að taka lengri tíma og þar eru tvö ár ekki fjarstæðukenndur tími. Dæmi eru um að endurhæfing hafi tekið styttri tíma en hálft ár og gengið vel. Ítalskur fótboltamaður var í þrjá mánuði í sínu ferli og lenti ekki í endursliti. Slík dæmi eru til en mikilvægt er að hugsa ekki um tímarammann heldur hvar maður er staddur. Hver er styrkurinn? Hver er hreyfigetan? Hver er stökkkrafturinn? Algengt er að fólk hugsi of mikið um tímann,“ sagði Haraldur Björn í samtali við Morgunblaðið.