Afmæli Árni Grétar „Futuregrapher“ Jóhannesson og Frosti „Bistro Boy“ Jónsson eru höfuðpaurar útgáfunnar Möller Records sem stendur.
Afmæli Árni Grétar „Futuregrapher“ Jóhannesson og Frosti „Bistro Boy“ Jónsson eru höfuðpaurar útgáfunnar Möller Records sem stendur. — Morgunblaðið/Eggert
Björgvin Helgi Jóhannsson gimbi18@gmail.com Útgáfan Möller Records fagnaði fimm ára afmæli sínu með útgáfu á safndisknum Best of Möller Records Vol. 1 sem sjá má á heimasíðu útgáfunnar, http://mollerrecords.com/.

Björgvin Helgi Jóhannsson

gimbi18@gmail.com

Útgáfan Möller Records fagnaði fimm ára afmæli sínu með útgáfu á safndisknum Best of Möller Records Vol. 1 sem sjá má á heimasíðu útgáfunnar, http://mollerrecords.com/. Á disknum eru fjölbreytt lög úr raftónlistarsenunni á Íslandi, allt frá líflegri danstónlist í rólega nánast dáleiðandi geimtónlist, gömul og ný lög.

Möller Records er plötuútgáfufyrirtæki sem gefur aðallega út raftónlist. Félagarnir Jóhann Ómarsson, einnig þekktur sem Skurken, og Árni Grétar Jóhannesson Futuregrapher stofnuðu útgáfufyrirtækið árið 2011. Á Best of Möller Records Vol. 1 eru þrjátíu lög, öll einstök hvert á sinn hátt og eftir mismunandi íslenska tónlistarmenn.

- Núna eru 5 ár síðan Möller Records var stofnað, hvað varð til þess að tveir ungir tónlistarmenn ákváðu að stofna útgáfufyrirtæki?

„Forlagið var stofnað af Futuregrapher og Skurken í Vesturbænum heima hjá tónlistarmanninum Jóhanni undir miklu bjórþambi, Bónus-beikonsnakksáti og miklum áhuga á raftónlist. Okkur vantaði vettvang til að gefa út eigin tónlist og ákváðum að stofna eigið útgáfufyrirtæki. Þetta var í janúar 2011,“ segir Árni Grétar.

Árni segist hafa byrjað að semja tónlist í tölvu þrettán ára gamall og eiga því tuttugu ára afmæli í raftónlist í þessum mánuði. „Ég notaði ýmis forrit og ýmsar græjur, eins og trommuheila, synthesizer og fleira og hef gefið út undir mörgum nöfnum.“

Raftónlistarbransinn fer stækkandi um heim allan og ekki síst á Íslandi að sögn Árna. „Hér á landi er hann orðinn mjög stór. Það er rosalega fjölbreytt tónlistarlíf og raftónlistin blómstar að mínu mati. Fullt af stefnum hefur litið dagsins ljós á undanförnum árum, t.d. cloud rap, trap, dubstep og fleira og gamlar stefnur hafa verið mótaðar betur – bæði fyrir „Jón og Gunnu“ og jaðarrotturnar,“ segir Árni.

- Möller Records hefur gefið út ýmsa raftónlistarmenn í gegnum árin. Hvað vakti fyrir ykkur með því að taka saman safnplötu?

„Pælingin var fimm ára afmæli Möller Records í ár, 2011-2016. Ég og Steve Sampling, Stefán Ólafsson, völdum lögin og þá lög frá öllum þeim sem hafa gefið út hjá forlaginu á þessum fimm árum. Sumir hafa farið og fetað nýjar leiðir, eða eru í dag að gefa út hjá öðrum, en þetta er samt ein risastór fjölskylda. Allir eru skyldir á einhvern hátt. Mikil ást.“

- Raftónlist er auðvitað gríðarlega stórt fyrirbæri. Hvernig tónlistarstefnur gefur Möller Records aðallega út?

„Ég myndi segja að þetta væri bara allt frá IDM, braindance, weirdcore, house, techno og ambient. Þetta er bara svona samsafn af helstu stefnum raftónlistarinnar. Möller er nördalegri en flestar útgáfur. En samt gott stöff. Góð raftónlist til að hafa heima í bakgrunni og getur virkað á dansgólfinu.“