Þá er Kristján Andrésson að stíga sín fyrstu spor sem þjálfari á stórmóti og sænska liðið virðist vera mjög spennandi undir hans stjórn. Hann teflir fram ungu liði og hafa Svíar fengið hrós fyrir sinn leik eftir leikinn gegn Dönum, þrátt fyrir að Danmörk hafi haft betur.
Eins og við var búist þá eiga bæði Danir og Þjóðverjar möguleika á því að fara alla leið í keppninni. Enda Ólympíumeistarar og Evrópumeistarar þar á ferðinni. Hver veit nema Svíar komi á óvart í þetta skiptið og komist langt í keppninni þótt reyndir menn séu hættir í sænska landsliðinu.
Velgengni handboltaþjálfaranna á síðasta ári undirstrikar hversu ofboðslega erfitt var að setja þrjú nöfn á blað yfir þjálfara ársins í kringum kjör Íþróttamanns ársins. Fyrir utan árangur Guðmundar og Dags þá stýrði Þórir einnig liði í verðlaunasæti á Ólympíuleikum og varð Evrópumeistari með Noreg. Ofan á það bætist árangur Heimis Hallgrímssonar, Freys Alexanderssonar og Finns Freys Stefánssonar auk fleiri þjálfara sem koma að afreksfólki í sundi, golfi, kraftlyftingum og fimleikum svo eitthvað sé nefnt.
Ég efast um að nokkurn tíma aftur verði jafn erfitt að setja þrjá þjálfara á blað í kjörinu en vonandi hef ég rangt fyrir mér í þeim efnum.