Ný dönsk rannsókn leiðir í ljós að fólk kýs að lesa lengri texta á pappír fremur en af skjá. Frá þessu er greint í danska dagblaðinu Politiken . Alls sögðust 77% aðspurðra kjósa að lesa lengri texta s.s.

Ný dönsk rannsókn leiðir í ljós að fólk kýs að lesa lengri texta á pappír fremur en af skjá. Frá þessu er greint í danska dagblaðinu Politiken . Alls sögðust 77% aðspurðra kjósa að lesa lengri texta s.s. skáldsögur, lengri greinar eða fagbækur á pappír fremur en á tölvuskjá, spjaldtölvu eða snjallsíma. Hæst var hlutfallið í hópi yngstu svarenda, en 83% svarenda á aldrinum 18-29 ára tóku pappírinn fram yfir skjáinn. Lægst var hlutfallið í aldurshópnum 60-69 ára eða 73%.

Rannsóknin, sem Bjerg Kommunikation og Megafon stóðu að, var framkvæmd í ágúst og október sl. og náði til ríflega þúsund manns sem svöruðu gegnum netið.

„Sú mýta er ríkjandi að unga fólkið sem alist hefur upp við tölvunotkun vilji helst lesa texta af skjá. En þannig er það ekki. Við túlkum rannsóknarniðurstöðurnar þannig að heilinn eigi auðveldara með að einbeita sér þegar hann meðtekur upplýsingarnar af pappír og kallast sú niðurstaða á við aðrar rannsóknir,“ segir Kresten Bjerg, forstjóri Bjerg Kommunikation, og vísar þar til rannsóknar Háskólans í Stavanger. Sú rannsókn leiddi í ljós að lesskilningur nemenda í 10. bekk var mun betri þegar þeir lásu textann á pappír í stað tölvuskjás.

Í frétt Politiken er á það bent að sífellt fleiri danskir skólar og opinberar stofnanir ætlist til þess að almenningur meðtaki upplýsingar af skjá í stað pappírs.