Hvolsvöllur Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur áhyggjur af mönnun heilsugæslunnar eftir uppsögn heilsugæslulæknis þar til langs tíma.
Hvolsvöllur Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur áhyggjur af mönnun heilsugæslunnar eftir uppsögn heilsugæslulæknis þar til langs tíma. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Sveitarstjórn Rangárþings eystra samþykkti á fundi sínum á mánudag ályktun þar sem lýst er yfir áhyggjum vegna heilsugæslu í Rangárþingi, en heilsugæslulæknir við Heilsugæslu Rangárþings hefur sagt starfi sínu lausu.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Sveitarstjórn Rangárþings eystra samþykkti á fundi sínum á mánudag ályktun þar sem lýst er yfir áhyggjum vegna heilsugæslu í Rangárþingi, en heilsugæslulæknir við Heilsugæslu Rangárþings hefur sagt starfi sínu lausu.

Fram kemur í ofangreindri ályktun að ljóst sé að læknir með áratuga reynslu og sérmenntun í heimilislækningum hafi sagt starfi sínu lausu við Heilsugæslu Rangárþings, en hann hafi verið í 75% starfshlutfalli sem ekki hafi fengist aukið. „Það er áhyggjuefni þar sem erfitt gæti reynst að fá lækni til starfa í ekki hærra starfshlutfall, þar sem erfiðlega hefur gengið að manna stöður heimilislækna á landsbyggðinni eins og forstöðumenn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands hafa m.a. upplýst um.

Öflug heilsugæsla er hornsteinn í hverju samfélagi og mikilvægt að henni sé sinnt eins og lög gera ráð fyrir, enda á heilsugæsla að vera fyrsti viðkomustaður einstaklinga innan heilbrigðiskerfisins,“ segir enn fremur í ályktun sveitarstjórnar Rangárþings eystra.

Hefur notið mikilla vinsælda

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, sagði í samtali við Morgunblaðið að í Rangárvallasýslu hefðu lengi vel verið þrjár stöður heilsugæslulækna, að undanförnu hefðu stöðugildin verið 2,75. „Þessi ágæti læknir sem hefur nú sagt stöðu sinni lausri hefur þjónað okkur lengi og notið mikilla vinsælda. Það verður því mikil eftirsjá að honum þegar hann hættir. Hann hafði áhuga á að fá fullt starf, sem hann fékk ekki,“ sagði Ísólfur Gylfi og bætti við: „Það sem skiptir okkur höfuðmáli er að við fáum örugga og fullnægjandi heilsugæsluþjónustu.“

Herdís Gunnarsdóttir er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) á Selfossi, en undir þá stofnun heyra heilsugæslustöðvar á Suðurlandi.

Herdís sagði í samtali við Morgunblaðið að það væri ávallt verklag HSU þegar starfsmaður léti af störfum að leitað væri allra leiða til að fylla í skarð viðkomandi. Framkvæmdastjóri lækninga á HSU og yfirlæknir heilsugæslunnar hefðu frá því að þeir fengu uppsagnarbréfið í hendur lagt mikla vinnu í að tryggja fulla mönnun lækna í Rangárþingi eins og verið hefði hingað til.

Full mönnun 2,75 stöðugildi

„Full mönnun lækna við heilsugæsluna í Rangárþingi er 2,75 stöðugildi miðað við íbúafjölda. Það er að okkar mati fullkomlega eðlilegt að upp komi kvíði hjá fólki vegna óvissu um hvað taki við þegar læknir með langan starfsaldur lætur af störfum.

Við hjá HSU sýnum því fullan skilning, enda einkenna mikil persónuleg tengsl gjarnan samskipti í litlum samfélögum. Við viljum þó að skýrt komi fram að það er stefna HSU að halda áfram úti fullri þjónustu við íbúa Rangárþings þrátt fyrir eðlilegar mannabreytingar,“ sagði Herdís.

Aðspurð sagði Herdís að nýr heilsugæslulæknir yrði ráðinn til starfa. Fyrst um sinn yrði ráðið í tímabundna afleysingu og þegar væri búið að tryggja þá mönnun frá þeim degi sem viðkomandi læknir léti af störfum.