Framkvæmdir Stíflumannvirkið verður ofan við Árnes og stöðvarhúsið verður sunnan við Þjórsá.
Framkvæmdir Stíflumannvirkið verður ofan við Árnes og stöðvarhúsið verður sunnan við Þjórsá. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi Sævarsson
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Sveitarstjórnir Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafa samþykkt að kynna fyrir almenningi og hagsmunaaðilum lýsingu vegna deiliskipulags fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Sveitarstjórnir Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafa samþykkt að kynna fyrir almenningi og hagsmunaaðilum lýsingu vegna deiliskipulags fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar í Þjórsá. Landsvirkjun vinnur einnig að endurskoðun á hluta umhverfismats og lokahönnun virkjunar. Ekki hefur verið ákveðið hvenær ráðist verður í virkjun en ef nauðsynleg leyfi fást í tæka tíð gætu fyrstu útboð orðið um næstu áramót.

Vinna saman að skipulagi

Hvammsvirkjun er efsta virkjunin í Neðri-Þjórsá og nýtir fall neðan Búrfellsvirkjunar. Fyrir eru sex virkjanir á vatnasvæði Tungnaár og Þjórsár. Miðað er við að uppsett afl virkjunarinnar verði allt að 95 megavött.

Stöðvarmannvirki Hvammsvirkjunar verða í landi Hvamms í Rangárþingi ytra en stíflumannvirki og lón munu taka yfir land beggja vegna árinnar og er framkvæmdasvæðið því í Rangárþingi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Hagalón verður um fjórir ferkílómetrar að stærð, að mestu leyti í núverandi farvegi Þjórsár. Stöðvarhúsið verður að mestu neðanjarðar.

Hægt er að kynna sér lýsinguna hjá skipulagsfulltrúum sveitarfélaganna og á heimasíðum þeirra og hjá Skipulagsstofnun. Frestur til að gera athugasemdir rennur út 1. febrúar nk. Landsvirkjun reiknar með að skipulagsvinnu ljúki á árinu.

Afla nauðsynlegra leyfa

Unnið er að endurskoðun á hluta umhverfismats vegna Hvammsvirkjunar. Landsvirkjun stefnir að því að auglýsa frummatsskýrslu í byrjun mars nk. Þá mun Skipulagsstofnun óska eftir umsögnum lögboðinna umsagnaraðila og almenningi gefst kostur á að koma með athugasemdir.

Hvammsvirkjun er í orkunýtingarflokki og ekki eru lagðar til breytingar á því í fyrirliggjandi tillögum verkefnastjórnar.

Samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar hefur ekki verið ákveðið hvenær framkvæmdir hefjast. Unnið er að öflun nauðsynlegra leyfa en það eru virkjanaleyfi sem Orkustofnun veitir og framkvæmdaleyfi sveitarfélaganna. Fáist þau innan eðlilegra tímamarka segir Landsvirkjun að hægt væri að auglýsa fyrstu útboð vegna framkvæmda um næstu áramót.