Í nóvember lánuðu lífeyrissjóðirnir 9,4 milljarða í formi sjóðfélagalána.
Í nóvember lánuðu lífeyrissjóðirnir 9,4 milljarða í formi sjóðfélagalána. — Morgunblaðið/Ómar
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Lífeyrissjóðir og bankar hafa að undanförnu lækkað vexti á óverðtryggðum lánum, jafnvel niður fyrir 6%, og má það meðal annars rekja til meiri samkeppni á markaðnum.

Tveir af þremur stærstu lífeyrissjóðum landsins hafa á síðustu dögum ákveðið að lækka vexti á óverðtryggðum sjóðfélagalánum. Þannig hefur Lífeyrissjóður verslunarmanna lækkað óverðtryggð lán með föstum vöxtum til 36 mánaða niður í 5,94% en þeir voru áður 6,24%. Þá hefur Gildi lífeyrissjóður lækkað breytilega vexti á óverðtryggðum lánum niður í 6,15% en þeir voru áður 6,4%. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins býður ekki upp á óverðtryggð lán. Lægstu óverðtryggðu vexti til fasteignakaupa býður hins vegar Frjálsi lífeyrissjóðurinn, en þar á bæ eru þeir 5,9% og hafa verið um nokkurt skeið.

Með sama hætti hafa viðskiptabankarnir þrír verið að lækka óverðtryggða vexti á lánum til húsnæðiskaupa. Þannig hafa bæði Landsbankinn og Íslandsbanki lækkað óverðtryggða breytilega vexti úr 6,75% í 6,5% og Arion banki hefur lækkað vexti á sambærilegum lánum úr 6,55% í 6,35%.

Ásgeir Jónsson hagfræðingur, segir að þessar lækkanir séu annars vegar eðlileg þróun í kjölfar stýrivaxtalækkana Seðlabankans fyrir áramót sem hafi lækkað nafnvaxtarófið og hins vegar vegna harðnandi samkeppni á húsnæðislánamarkaði.

„Lífeyrissjóðirnir hafa augljóslega tekið þá stefnu að lána í auknum mæli beint til sjóðsfélaga í stað þess að vera milliliðir. Þeir hafa um langt skeið fjármagnað húsnæðiskaup landsmanna og gerðu það hér áður með því að kaupa útgáfur Íbúðalánasjóðs,“ segir Ásgeir.

Hann segir að bankarnir eigi mjög erfitt með að keppa við lífeyrissjóðina þegar kemur að lánum á fyrsta veðrétti og með góðri veðþekju. Tvær ástæður liggi þar helst að baki. „Bankarnir búa við mjög íþyngjandi regluverk sem hefur mikinn kostnað í för með sér, auk þess að þurfa að greiða ýmsa sértæka skatta. Almennt eiga bankar einnig erfitt með að fjármagna sig til langs tíma og það gerir þeim örðugara um vik að lána til langs tíma eins og oftast er raunin í fasteignaviðskiptum. Þar hafa lífeyrissjóðirnir algjör yfirburði, enda streymir fé inn í þá sem þeir þurfa svo ekki að standa skil á fyrr en jafnvel áratugum síðar. Það er mikill munur á slíkri fjármögnun og til dæmis innlánum sem bankarnir þurfa að stóla á.“

Spurður út í hvort bankarnir hafi þá einhverja leið til að mæta samkeppninni frá lífeyrissjóðunum segir Ásgeir að þeim sé ekki alls varnað.

„Bankarnir búa auðvitað yfir mun fyllri og betri upplýsingum um sína viðskiptamenn, sem gerir þeim betur kleift að meta greiðsluhæfi þeirra og í framhaldi lána með skynsamlegum hætti. Þeir hafa einnig útibúanet og mannafla til reiðu til þess að þjóna lántakendum og klæðskerasníða fjármögnun fyrir hvern og einn. Lífeyrissjóðirnir hafa hins vegar svarað því með því að lána einfaldlega á fyrsta veðrétti og hafa veðþekjuna mjög trausta. En það mikla aðgengi að upplýsingum sem bankarnir búa yfir veldur því að þeir geta þá staðsett sig í lánveitingum á öðrum eða þriðja veðrétti, á hærri vöxtum og sömuleiðis lánað á grundvelli persónulegra upplýsinga,“ segir Ásgeir.

Lánabækurnar þenjast út

Á síðustu mánuðum hafa bankar og sparisjóðir stigið stór skref í átt að lækkun lántökugjalda og búa sig með því undir löggjöf sem tekur gildi síðar á þessu ári sem þrengir að möguleikum til slíkrar innheimtu. Þannig innheimta stofnanirnar nú fast lántökugjald sem er hagstæðara fyrir flesta lántakendur en hlutfallsleg gjöld sem áður lögðust á þær upphæðir sem lántakar fengu í sinn hlut.

„Þróunin er í þá átt að endurfjármögnun á húsnæðislánamarkaði er orðin einfaldari og ódýrari en var. Það skýrir meðal annars þá miklu útlánaaukningu sem er að verða hjá lífeyrissjóðunum. Þetta er mjög mikilvægt atriði og mun auka samkeppnina á þessum markaði frá því sem verið hefur,“ segir Ásgeir.

Eins og Morgunblaðið fjallaði um 6. janúar lánuðu lífeyrissjóðir landsins út ríflega 79,6 milljarða króna til sjóðfélaga sinna á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs en yfir sama tímabil árið á undan námu lánveitingarnar 18,4 milljörðum. Sjóðirnir hafa því haslað sér völl á húsnæðislánamarkaði með afgerandi hætti.