Samstarf Ragnar Óskarsson styrktarþjálfari, Óskar Bjarni Óskarsson aðstoðarþjálfari og Geir Sveinsson ræða málin í höllinni í Metz.
Samstarf Ragnar Óskarsson styrktarþjálfari, Óskar Bjarni Óskarsson aðstoðarþjálfari og Geir Sveinsson ræða málin í höllinni í Metz. — Morgunblaðið/Guðmundur Hilmarsson
Í Metz Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Ragnar Óskarsson, fyrrverandi landsliðsmaður og nú aðstoðarþjálfari hjá franska liðinu Cesson Rennes, er í þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins í handknattleik og er með því á HM í Frakklandi.

Í Metz

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Ragnar Óskarsson, fyrrverandi landsliðsmaður og nú aðstoðarþjálfari hjá franska liðinu Cesson Rennes, er í þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins í handknattleik og er með því á HM í Frakklandi. Morgunblaðið hitti Ragnar á hóteli landsliðsins í Metz í gær og spurði hann fyrst hvert væri hlutverk hans í þjálfarateyminu?

„Ég er fyrst og fremst styrktarþjálfari og er titlaður þannig. En svo er maður svolítið með puttana í öllu. Ég hjálpa til að leggja orð í belg varðandi leikskipulag ef eitthvað er leitast er eftir því. Ég reyni nú samt að halda mig aðeins frá því. Það er fullt af undirbúningsvinnu sem þarf að sinna. Klippa leiki, dreifa álaginu á leikmenn og svo erum við að vinna með Sideline-hugbúnaðarkerfið sem hjálpar okkur að halda utan um ýmsa hluti. Ég hef verið í því,“ sagði Ragnar sem stjórnar upphitun landsliðsins fyrir leikina og sér líka um að leikmenn öðlist góða endurheimt eftir leikina.

Spurður út þá fjóra leiki sem Ísland hefur spilað á mótinu sagði Ragnar: „Mér hefur fundist vera stígandi í þessu hjá liðinu. Við erum með mikið breytt lið og margir ungir strákar sem eru að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu og hafa á mótinu fengið að spila nokkur stór hlutverk. Þetta er frábær hópur og menn að gefa sig alla í verkefnið. Það er frábært að séum að yngja upp í liðinu og horfa til framtíðar með það. Ég hef hrifist af þolinmæði Geirs Sveinssonar varðandi næstu ár en hann er í uppbyggingarferli. Framtíðin hjá landsliðinu er mjög björt að mínu mati. Þetta er ótrúlegur skóli sem okkar ungu drengir hafa fengið hér í Frakklandi og þeir verða að fá að gera sín mistök hér og þar. Mér finnst þeir flestir vera að koma mjög sterkir inn í þetta,“ sagði Ragnar en íslenska liðið spilar úrslitaleik við Makedóníu í dag um að komast áfram í 16 liða úrslitin.

Norðmenn smeykir við okkur

,,Ef við vinnum þennan leik erum við bara í þokkalegri stöðu að gera ágæta hluti á mótinu. Besta staðan fyrir okkur væri að tryggja okkur leik við Norðmenn. Eins og staðan er í dag eru þeir kannski með sterkara lið heldur en við en sálfræðilega eru þeir pínu smeykir við okkur á stórmótum. Þeim gengur illa að vinna okkur á stórmótum. En við erum ekki komnir á þennan stað. Núna bíður okkur úrslitaleikur og það er gott að þetta hefur spilast þannig að þetta er algjörlega í okkar höndum. Strákarnir ungu fá enn eitt prófið að taka þátt í svona úrslitaleik. Það er mjög dýrmætt,“ sagði Ragnar, sem lék 99 landsleiki og skoraði í þeim 158 mörk.