Hefð hefur skapast fyrir því að Bandaríkjaforseta ákveði undir lok embættistíðar sinnar að náða ýmsa eða milda dóma þeirra, eins og stjórnarskrá Bandaríkjanna heimilar þeim að gera. Í samræmi við þessa hefð ákvað Barack Obama á þriðjudag að milda dóma yfir um 200 manns.
Það sem helst hefur vakið athygli við þessa ráðstöfun er að á meðal þeirra sem þannig fengu styttan dóm var landgönguliðinn Chelsea Manning, sem afplánar 35 ára dóm fyrir að hafa lekið trúnaðargögnum til Wikileaks-heimasíðunnar og þannig, eins og sagði í ákærunni, veitt óvinum Bandaríkjanna aðstoð. Verður hún samkvæmt ákvörðun Obama leyst úr haldi í maí næstkomandi.
Mál Manning er sérstakt, þar sem hún var í haldi Bandaríkjahers fram að réttarhaldi sínu, enda féll mál hennar undir herrétt. Í því fólst til dæmis að henni var haldið í einangrun í nærri því heilt ár. Hafa mannréttindasamtök gert ýmsar athugasemdir við þann aðbúnað sem henni var og hefur verið búinn, en að auki fór Manning í að breyta um kyn á sama tíma og hún hóf afplánun sína, sem hefur flækt allar aðstæður nokkuð.
Ákvörðun Obama hefur kallað fram gagnrýni, einkum repúblíkana á þingi og aðila sem tengjast hernum. Tom Cotton, öldungadeildarþingmaður og fyrrverandi herforingi, orðaði það svo að hann skildi ekki hvers vegna það ætti að gera föðurlandssvikara að píslarvætti.
Aðrir hafa einnig orðið til þess að spyrja sig hvað þetta muni þýða fyrir önnur lekamál sem koma kunni upp í framtíðinni, eða jafnvel hvaða áhrif þetta hafi á mál þeirra Julians Assange, stofnanda Wikileaks, eða Edwards Snowden.
Blaðafulltrúi Obama gætti sín sérstaklega á því að taka fram að mildun þessa dóms hefði ekki fordæmisgildi fyrir önnur mál, sér í lagi mál þar sem dómur lægi ekki fyrir. Forsetaembættið hefur þó völd til slíkrar náðunar án tillits til þess hvort dómur hefur fallið, og hefur beitt þeim að minnsta kosti einu sinni, í tilfelli Richards Nixon eftir að sá sagði af sér embætti.
Það sem líklega slær þó á allar vonir, eða ótta eftir atvikum, um að þessi ákvörðun Obama muni á næstu árum hafa einhverja þýðingu fyrir aðra er að frá og með morgundeginum verður Obama ekki lengur við völd og eftirmaðurinn er af allt öðru sauðahúsi.