Eftir því var tekið að í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar var sérstaklega tekið fram að ekki yrðu veittar á kjörtímabilinu sérstakar ívilnanir til þess sem kallað er mengandi stóriðja. Þórdís neitar því að í yfirlýsingunni felist andstaða við þá stóriðjustarfsemi sem byggð hefur verið upp í landinu.
„Ég lít ekki svo á að þetta feli í sér árás á stóriðju. Það eru mismunandi skoðanir uppi um þessa starfsemi en ég held að það tali enginn fyrir því að kippa fótunum undan þeim fyrirtækjum sem starfa á þessu sviði í dag. Stjórnarsáttmálinn felur ekki í sér bann við uppbyggingu stóriðju en það er ljóst af honum að áherslan er ekki á hana. Ég get hins vegar einnig sagt að það eru engin verkefni á borði míns ráðuneytis í dag sem þessi yfirlýsing hefur áhrif á. Það er enginn að biðja um ívilnanir til að byggja upp slíka starfsemi. Hins vegar held ég, út frá þessari umræðu, að við myndum vilja sjá stóriðjuna komast lengra í virðiskeðjunni hér innanlands, það á við um hana eins og allar aðrar atvinnugreinar. Þar eru tækifæri og ég vona að stóriðjan finni leiðir til að búa meira til úr þeirri miklu framleiðslu sem hér verður til og tryggja með því meiri virðisaukningu af starfseminni í landinu. Það myndi viðhalda og jafnvel fjölga þeim góðu störfum sem tengjast stóriðjunni og auka störf á landsbyggðinni.“