Sviðsljós
Vilhjálmur A. Kjartansson
vilhjalmur@mbl.is
„Við hjá Símanum förum að fjarskipta- og persónuverndarlögum. Við höldum utan um upplýsingar í sex mánuði um tengingar tækisins en ekki innihald samskipta – var hringt eða sent sms og hvert, og hvenær samskiptin áttu sér stað. Einnig magn gagna við netnotkun,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, vegna fyrirspurnar um upplýsingaöflun lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur er veitti lögreglunni heimild til að afla og bera saman upplýsingar um farsíma sem tengdust sömu fjarskiptamöstrum og á sama tíma og sími Birnu Brjánsdóttur morguninn sem hún hvarf. Með þeim gögnum getur lögreglan rakið ferðir annarra sem voru á þessari leið.
Gunnhildur segir eðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvaða upplýsingum símafyrirtæki hafi aðgang að en að Síminn hafi ekki fengið margar fyrirspurnir frá sínum viðskiptavinum.
„Við höfum síðustu daga ekki fengið fyrirspurnir frá viðskiptavinum vegna umfjöllunar fjölmiðla um upplýsingaöflun lögreglunnar. En það er vert að fólk velti því fyrir sér hversu miklar upplýsingar megi rekja um það á netinu, en þær liggja almennt hjá þeim sem bjóða þjónustu á netinu, forritum, öppum eða samfélagsmiðlum, en ekki fjarskiptafyrirtækinu.“
Víðtækar heimildir lögreglu
Lögreglan hefur mjög víðtækar rannsóknarheimildir samkvæmt lögreglulögum og er undanþegin ákveðnum ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þannig gilda sum ákvæði laganna ekki um vinnslu persónuupplýsinga sem varða almannaöryggi, landvarnir, öryggi ríkisins og starfsemi ríkisins á sviði refsivörslu. Einstaklingum er ætíð heimilt að veita lögreglu efni með upplýsingum um slys eða refsiverðan verknað að sögn Persónuverndar en jafnframt er bent á að almennt gildir um efni sem verður til við rafræna vöktun að það er ekki afhent öðrum eða unnið frekar nema með samþykki þeirra aðila sem upptakan er af eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar.Ekki náðist í forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar en málefni persónuverndar í fjarskiptum falla undir stofnunina, ekki Persónuvernd.
Geta notað kerfi Almannavarna
Símkerfi eru nýtt á margs konar hátt við rannsókn mála og leit að fólki en í Bandaríkjunum er stuðst við svokallað AMBER Alert kerfi. Þá er það undir mati lögregluyfirvalda á hverjum stað komið hvort sendar eru út í alla farsíma á ákveðnu svæði tilteknar upplýsingar sem hjálpað geta við leit eða rannsókn á máli.Rögnvaldur Ólafsson, lögreglufulltrúi Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, segir Almannavarnir búa yfir slíku kerfi en það hafi ekki verið notað með þeim hætti sem gert er í Bandaríkjunum.
„Þegar gosið var í Holuhrauni sendum við upplýsingar til íbúa svæða sem urðu fyrir óþægindum vegna gosmakkarins. Kerfið var einnig prófað á höfuðborgarsvæðinu fyrir nokkrum árum þegar þakplötur tóku að losna í Mosfellsbæ í miklu óveðri.“
Spurður hvort nýta mætti kerfið við leit að fólki, þ.e. senda upplýsingar á alla síma á tilteknu svæði með upplýsingum um þann sem leitað er að segir Rögnvaldur ekkert koma í veg fyrir slíkt.
„Kerfið gerir í raun ekkert annað en að pinga síma á ákveðnu svæði og senda þeim skilaboð. Við vitum ekki hver á símann né rekjum hann.“