Þórdís Kolbrún telur gjaldtöku skilvirka leið til aðgangsstýringar.
Þórdís Kolbrún telur gjaldtöku skilvirka leið til aðgangsstýringar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýr ráðherra ferðamála telur að landeigendur eigi að beita gjaldtöku ef þeir telja það stuðla að náttúruvernd.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýr ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, segir að gjaldtaka sé skilvirk leið til aðgangsstýringar þegar ásókn ferðamanna á tiltekin landsvæði er annars vegar. Þannig sé ekki óeðlilegt að landeigendur grípi til þess úrræðis.

„Ég er á þeirri skoðun að ef landeigendur líta svo á að það sé í þágu náttúrunnar að rukka inn á sín svæði þá eigi þeir að skoða þann kost mjög alvarlega.“

Segist hún ekki taka undir þau sjónarmið að ekki megi grípa til takmarkana á aðgengi einstaklinga að almenningum, enda hljóti eignarréttarákvæði stjórnarskrár að vega þungt í mati á því hvort aðgangsstýring sé heimil eða ekki. Viðurkennir hún þó að þarna sé um mál að ræða þar sem viðkvæm og ólík sjónarmið séu uppi.