Xi Jinping, forseti Kína, flytur ræðu á opnunardegi fundar Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss í fyrradag.
Xi Jinping, forseti Kína, flytur ræðu á opnunardegi fundar Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss í fyrradag. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jamil Anderlini og Wang Feng í Davos, og Tom Mitchell í Peking Það þykir tíðindum sæta að leiðtogi kínverskra kommúnista marki sér stöðu sem varðmaður frjálsra viðskipta í heiminum á höfuðmessu kapítalismans í Davos í Sviss.

Forseti Kína hefur gripið kröftuglega til varnar hnattvæðingu og frjálsum viðskiptum, einungis þremur dögum áður en Donald Trump sver embættiseið sinn í Washington.

„Það er ekki alþjóðavæðing sem veldur þeim vandamálum sem hrjá heiminn,“ sagði Xi Jinping á fundi Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos. „Þau eru ekki óhjákvæmileg afleiðing alþjóðavæðingar.“

Nefndi ekki Trump á nafn

Það þykir til marks um það uppnám sem kosningasigur Trumps hefur valdið, að leiðtogi kínverska kommúnistaflokksins sé í því hlutverki á vettvangi hins hugmyndafræðilega vígis kapítalismans að verja frjálst markaðshagkerfi gegn mögulegri verndarstefnu nýs forseta Bandaríkjanna.

„Ríki heimsins ættu að meta hagsmuni sína í víðara samhengi og forðast að vinna eigin hagsmunamálum brautargengi á kostnað annarra,“ sagði Xi, án þess að nefna Trump sérstaklega. „Við ættum ekki að hörfa aftur til hafnar í hvert skipti sem við lendum í hafróti, því þá komumst við aldrei að landi hinum megin.“

Enginn sigrar í viðskiptastríði

Hann varaði einnig við því að „í viðskiptastríði stendur enginn uppi sem sigurvegari“. Hét forsetinn því að Kína myndi ekki reyna að hagnast á veikingu gjaldmiðils landsins eða hefja „gjaldmiðlastríð“.

Á undanförnum vikum hefur tilvonandi forseti Bandaríkjanna haft í hótunum um að hefja viðskiptastríð við Mexíkó og Kína, og jafnvel kastað rýrð á Evrópusambandið sem „tæki fyrir Þýskaland“ sem væri að hruni komið.

Xi notaði samkomu Alþjóðaefnahagsráðsins til að sýna sjálfan sig í gagnstæðu ljósi, sem leiðandi alþjóðlegan stjórnmálaleiðtoga.

Xi virtist vísa til hótana Trumps um að snúa baki við Parísarsáttmálanum um loftslagsmál frá liðnu ári, þegar kínverski forsetinn sagði að þar væri um að ræða „samkomulag sem mikið var haft fyrir“ og sem „allir samningsaðilar ættu að standa við“.

Alþjóðastjórnskipulag úrelt

Leiðtogi Kína færði einnig rök fyrir endurskoðun á stjórnskipulagi alþjóðasamfélagsins, sem hann sagði úr sér gengið og miðast of mikið við vestræna hagsmuni.

„Gangverk hins alþjóðlega fjármálamarkaðar mætir ekki kröfum nýrra tíma og er ófært um að leysa með skilvikum hætti úr vandamálum á borð við tíðan óstöðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og bólumyndun í ýmsum eignaflokkum,“ sagði hann.

Xi hélt því fram í ræðu sinni að umheimurinn nyti góðs af þeim hagvexti sem hefði átt sér stað í Kína. Er þess vænst að á næstu fimm árum flytji þetta næststærsta hagkerfi heims inn vörur og þjónustu fyrir 8.000 milljarða bandaríkjadala. Hann bætti við að á sama tímabili mundu fjárfestingar Kínverja erlendis nema 750 milljörðum dala, sem yrði meira en 600 milljarða bein erlend fjárfesting í Kína á tímabilinu.

Á meðan forsetinn hélt ræðu sína tilkynnti ríkisráð Kína að stjórnvöld hygðust greiða enn frekar fyrir erlendri fjárfestingu í námavinnslu, innviðum, þjónustu- og tæknigeirum landsins.

„Kína mun halda dyrunum opnum upp á gátt,“ sagði Xi. „Við vonum að önnur lönd muni einnig halda sínum dyrum opnum fyrir kínverskum fjárfestum og leyfi okkur að sitja við sama borð og aðrir.“

Stangast á við verndarstefnu

Sumir diplómatar hafa bent á að jákvætt tal Xi um alþjóðavæðingu stangist á við þá verndarstefnu sem stunduð sé í Kína.

Í yfirlýsingu sem Michael Clauss, sendiherra Þýskalands í Peking, sendi frá sér á mánudag sagði hann að „pólitísk fyrirheit um að [erlend fyrirtæki] sitji við sama borð hafa farið halloka fyrir tilhneigingu til aukinnar verndarstefnu“. Um leið hvatti Clauss til þess að fríverslunarviðræðum Kína og ESB yrði lokið sem fyrst, en með því væri „sent skýrt merki um að tvö af helstu viðskiptasvæðum heims væru staðráðin í að stefna að aukinni fjárfestingu, auknum viðskiptum og aukinni hagsæld“.