Sjávarútvegsfyrirtækin HB Grandi, Vísir, Þorbjörn og Samherji og nýsköpunarfyrirtækið Codland hafa undirritað viljayfirlýsingu um að standa sameiginlega að stofnun Heilsuvöruhúss á Reykjanesi, nálægt Reykjanesvirkjun. Er ráðgert að fyrirtækið taki til starfa í byrjun næsta árs. Heildarkostnaður verkefnisins er áætlaður um einn milljarður króna.
Í ráði er að aðalframleiðsluvara fyrirtækisins verði kollagen-prótein, en það er notað í heilsufæði, fæðubótarefni og lyf. Verður við framleiðsluna notast við jarðvarma af Reykjanesi.
„Heilsuvöruhúsið verður á Reykjanesi og munum við nýta gufuna frá Reykjanesvirkjun við vinnsluna sem gerir allt ferlið mjög umhverfisvænt,“ segir Tómas Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
„Í þessu heilsuvöruhúsi verður eingöngu unnið með þorskroð, alla vega í fyrstu.“ Hann segir þróun við vinnslu kollagens hafa breyst hratt síðustu ár og byggt verði á reynslu erlendra aðila af vinnslu þess úr svínaskinni.
„Við höfum svo gert okkar eigin rannsóknir í samstarfi við Matís. Þetta er fremur tæknileg vinnsla og þarna myndast nokkur hátæknistörf. Við erum enn að vinna prufuvinnslur en öll þekking til að ná efninu úr roðinu er til staðar. Við erum búnir að frumhanna húsið og tækjalistinn liggur fyrir. Nú er bara eftir að byggja húsið, setja tækin upp og fínstilla framleiðsluna“
Þarna sameina fjögur af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum krafta sína. „Þessi fyrirtæki hafa mikla reynslu af fiskveiðum og ráða yfir skipaflota og aflaheimildum til að afla fyrirtækinu grunnhráefnis og um leið auka nýtingu og verðmætasköpun hliðarafurða í sjávarútvegi,“ segir Tómas Þór.
„Stefna okkar er að hefja mjög fljótt sölu í stórum pakkningum, en jafnhliða höfum við verið að þróa aðrar vörur, í smærri pakkningum og komumst þannig nær endanlegum kaupanda vörunnar. Þannig höfum við í hyggju að auka verðmæti vörunnar enn meira með sölu kollagens í neytendaumbúðum. Okkur sýnist því mögulegt að margfalda verðmæti roðsins, miðað við þá nýtingu þess sem nú þekkist.“
Tómas segir að viðræður hafi farið fram við framleiðendur innlendrar matvöru um að blanda kollageni framleiddu úr þorskroði í vörur þeirra. „Það er því til dæmis hægt að auka próteinmagn í heilsudrykkjum, en kollagen er eitt aðaluppbyggingarefni liða líkamans.“
Áætlað er að skóflustunga að Heilsuvöruhúsi verði tekin í vor.