Lucas Leiva
Lucas Leiva
Sögulegt mark frá brasilíska miðjumanninum Lucas Leiva var það eina sem skildi að Liverpool og D-deildarliðið Plymouth Argyle í 180 mínútna baráttu í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu.

Sögulegt mark frá brasilíska miðjumanninum Lucas Leiva var það eina sem skildi að Liverpool og D-deildarliðið Plymouth Argyle í 180 mínútna baráttu í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu. Liðin gerðu markalaust jafntefli á Anfield á dögunum og þurftu því að mætast aftur á Home Park í Plymouth, þar sem Liverpool sigraði, 1:0.

Lucas skoraði með hörkuskalla á 19. mínútu eftir hornspyrnu frá Philippe Coutinho. Markið er hans fyrsta fyrir félagið í rúm sex ár, síðan í september árið 2010. Heimamenn áttu sín færi og m.a. stangarskot. Liverpool fékk vítaspyrnu undir lokin en Divock Origi skaut lausu skoti beint á Luke McCormick í marki Plymouth.

Þetta þýðir að Liverpool fær Jón Daða Böðvarsson og félaga hans í Wolves í heimsókn í 4. umferðinni um aðra helgi.

Newcastle og Southampton tryggðu sér líka sæti í fjórðu umferð keppninnar með sigrum á Birmingham og Norwich. vs@mbl.is