Eygló Helga Haraldsdóttir fæddist í Reykjavík 19.1. 1942, dóttir Haralds Gíslasonar, framkvæmdastjóra í Reykjavík, og k.h., Þórunnar Guðmundsdóttur húsfreyju.

Eygló Helga Haraldsdóttir fæddist í Reykjavík 19.1. 1942, dóttir Haralds Gíslasonar, framkvæmdastjóra í Reykjavík, og k.h., Þórunnar Guðmundsdóttur húsfreyju.

Eygló giftist 1963, Eiði Svanbergi Guðnasyni, fyrrverandi alþingismanni, ráðherra og sendiherra, og eru börn þeirra Helga Þóra, viðskipta- og markaðsfræðingur, MBA; Þórunn Svanhildur, BA í sænsku og viðskiptafræðingur MBA, og Haraldur Guðni, forstöðumaður, MBA.

Eygló ólst upp í Reykjavík, var í Laugarnesskólanum, og var kornung er hún lék með fiðlusveit Laugarnesskóla sem Ingólfur Guðbrandsson hafði stofnað og stjórnaði.

Eygló stundaði nám í píanóleik í einkatímum, m.a. hjá Gunnari Sigurgeirssyni, hóf síðan píanónám við Tónlistarskólann haustið 1953, stundaði þar nám í 12 ár og var ein þeirra þriggja nemenda, sem fyrst luku námi við nýstofnaða píanókennaradeild Tónlistarskólans vorið 1965.

Eygló hóf kennslu við Tónlistarskólann þá um haustið en jafnframt því kenndi hún nokkrum nemendum í einkatímum, utan skólans. Hún var einkar vinsæll og virtur píanókennari en hún kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík allt til haustsins 1993 eða í tæplega þrjá áratugi.

Samhliða tónlistarkennslunni var Eygló húsfreyja á heimili stjórnmálamanns sem hlaut að vera gestkvæmt, ekki síst er eiginmaður hennar var ráðherra.

Haustið 1993 fluttu þau hjónin til starfa við sendiráð Íslands í Noregi. Þau störfuðu að mestu erlendis sem fulltrúar Íslands í Noregi, Kína, Kanada og Færeyjum fram í ársbyrjun 2009 og var Eygló alls staðar glæsilegur fulltrúi þjóðar sinnar sem sendiherrafrú enda sérlega smekkvís, vinsæl, vel að sér og vel gefin, gestrisin, alúðleg, alþýðleg og bráðskemmtileg í viðkynningu.

Eygló lést 13.5. 2015.