Hlutafélagaformið er það félagsform sem nýtur mestra vinsælda hér á landi. Fram kemur á vef Hagstofu Íslands að 2.679 ný einkahlutafélög hafi verið skráð á tímabilinu nóvember 2015 til október 2016. Þegar aðilar hefja rekstur eða einhvers konar samstarf er það því oftar en ekki gert í gegnum einkahlutafélag. Slík félög eru sjálfstæðir lögaðilar, ábyrgð hluthafa er takmörkuð við framlag þeirra (hlutafé) til félagsins og um starfsemi þessara félaga gildir skýrt regluverk í settum lögum. Þannig er skýr lína dregin og fjárhagur félagsins er aðskilinn frá fjárhag hluthafa þess. Segja má að eignarhald á hlut í einkahlutafélagi feli helst í sér tvennt: annars vegar rétt til að nýta sér þau réttindi sem hlutareigninni fylgja, s.s. atkvæðisrétt, rétt til arðgreiðslna o.fl. og hins vegar rétt til að ráðstafa með löggerningi þeirri eign sem felst í hlutunum. Vinsældir hlutafélagaformsins, og þá sérstaklega einkahlutafélaga, þurfa því vart að koma nokkrum á óvart.
Þegar aðilar stofna félag eða hefja samstarf á vettvangi hlutafélags eru yfirleitt til staðar háleit markmið um framtíðar velgengni félagsins og engin vandamál til staðar í rekstrinum eða ágreiningur á milli hluthafanna í augsýn. Það gleymist því stundum á slíkum hveitibrauðsdögum að hugsa út í það hvað gerist ef vandamál koma upp í rekstrinum eða ef upp kemur ágreiningur á milli hluthafanna um hvernig skuli fara með rekstur félagsins. Í slíkum tilvikum er afar gagnlegt ef til staðar er samningur á milli hluthafanna um málefni félagsins og innbyrðis réttarstöðu þeirra hver gagnvart öðrum og gagnvart félaginu, þ.e. hluthafasamkomulag.
Ástæður þess að hluthafar kjósa að gera hluthafasamkomulag sín á milli geta verið margvíslegar. Það getur t.a.m. verið til þess að mæla fyrir um tilteknar reglur sem skuli gilda um stjórnun félagsins, sem eru ítarlegri en það sem fram kemur í samþykktum þess. Slíkt felur oft í sér ákveðna minnihlutavernd, þ.e. að tilteknum hluthafa eða hluthöfum eru veitt aukin völd yfir stjórnun félagsins heldur en leiða myndi af hlutafjáreign þeirra. Slík ákvæði eru oft útfærð með þeim hætti að hluthafar semja um hvernig stjórn félagsins skuli skipuð og skuldbinda sig til að beita atkvæðisrétti sínum í félaginu til samræmis við það, eða að tilteknar ákvarðanir skuli háðar samþykki hluthafa sem ráða að lágmarki yfir ákveðnu magni af hlutafé félagsins. Tilgangurinn getur einnig verið að mæla fyrir um að tilteknar hömlur skuli gilda um meðferð hluta í félaginu, t.a.m. þegar um er að ræða forkaupsrétt eða skyldu og/eða rétt til samhliða sölu, eða svokölluð „drag-along“ og „tag-along“ ákvæði. Enda getur það skipt aðra hluthafa máli hvernig staðið er að framsali eignarhluta í félaginu og að þeir hafi tækifæri til þess að gæta réttar síns í slíkum tilvikum. Hluthafasamkomulag getur einnig mælt fyrir um hvernig staðið skuli að útgöngu hluthafa ef upp kemur ágreiningur í hluthafahópnum og fyrir liggur að grundvöllur samstarfsins sé brostinn og ganga þess konar ákvæði oft undir dramatískum nöfnum eins og „Texas Shootout“ og „Russian Roulette“.
Það er að ýmsu að huga þegar kemur að því að stofna hlutafélag og hefja rekstur í samstarfi við aðra. Mikilvægt er að hluthafar leiði hugann að því hvað geti komið upp þegar fram í sæki og láti ekki stjörnublik í augum á hveitibrauðsdögum félagsins blinda sér sýn. Að leggja línurnar í upphafi um hvernig félaginu skuli stjórnað, hvernig meðferð eignarhluta skuli háttað og hvernig tekið skuli á ágreiningi hluthafa sem upp getur komið kann að reynast ómetanlegt, ef ske kynni að á slíkt myndi reyna.