Á Sandskeiði Flugvöllurinn var malbikaður fyrir nokkrum árum.
Á Sandskeiði Flugvöllurinn var malbikaður fyrir nokkrum árum. — Morgunblaðið/Haraldur Guðjón
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Fjárskortur veldur því að ekki hefur verið fundinn nýr staður fyrir kennslu- og einkaflug í nágrenni Reykjavíkur eins og samið var um milli ríkis og borgar árið 2013.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Fjárskortur veldur því að ekki hefur verið fundinn nýr staður fyrir kennslu- og einkaflug í nágrenni Reykjavíkur eins og samið var um milli ríkis og borgar árið 2013.

Í samkomulagi sem Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og Jón Gnarr borgarstjóri undirrituðu í Hörpu 25. október 2013 sagði m.a: „Óháð öðrum verkþáttum sem í samkomulaginu felast munu innanríkisráðuneytið og Isavia hafa forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar í samræmi við áður gefin fyrirheit vegna endurbyggingar vallarins um síðustu aldamót og skal stefnt að því að framkvæmdir verði hafnar eins fljótt og verða má.“

Síðan þetta samkomulag var undirritað fyrir rúmlega þremur árum hefur ekkert breyst og kennslu- og einkaflugið hefur verið áfram á Reykjavíkurflugvelli.

Forgangsraðað í þágu öryggis

„Fjármunir til rekstrar, uppbyggingar og viðhalds flugvallarkerfisins innanlands hafa verið mjög takmarkaðir undanfarin ár og er þeim forgangsraðað í þágu öryggis flugvalla sem fyrst og fremst þjóna áætlunarflugi. Hafa því ekki verið settir fjármunir í að byggja upp sérstakan æfingaflugvöll og undirbúningur því ekki hafinn að gerð sérstaks flugvallar fyrir kennslu- og einkaflug,“ segir í svari Jóhannesar Tómassonar, upplýsingafulltrúa innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins.

„Benda má á að flugbrautin á Sandskeiði var malbikuð fyrir nokkrum árum og sömuleiðis var flugvöllurinn á Stóra Kroppi byggður upp og endurbættur fyrir æfingaflug. Þá hefur flugvöllurinn við Selfoss einnig verið styrktur gegn því að hann megi nota fyrir æfinga- og kennsluflug en hann er í einkaeigu,“ segir í svari Jóhannesar.

Hafa skoðað nokkra valkosti

„Varðandi möguleika á flutningi kennsluflugs frá Reykjavíkurflugvelli yfir á annan flugvöll höfum við skoðað nokkra valkosti og aðeins rætt óformlega við nokkra forráðamenn flugskóla,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.

Hann segir að til þess að málið fari lengra þurfi að koma skýr lína frá hinu opinbera um stefnu í þessu máli og einnig þurfi fjármagn til að þetta megi verða. Hér sé um nokkuð stóra fjárfestingu að ræða og þeir peningar hafi ekki verið teknir frá.

„Nú liggur fyrir forhönnun á nokkrum kostum en ef skýr lína kemur frá ráðuneyti þyrfti ítarlegri vinna að fara í gang við að skoða þessa kosti nánar. Enn á til dæmis eftir að meta þessa kosti með tilliti til aðflugs, fráflugs, hávaða, veðurfars og fleiri þátta,“ segir Guðni.