Einbeitt Anna-Maria Helsing stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands á æfingu í Eldborgarsalnum í gær.
Einbeitt Anna-Maria Helsing stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands á æfingu í Eldborgarsalnum í gær. — Morgunblaðið/Ófeigur
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Á efnisskrá tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld er hin þekkta sjötta sinfónía Pjotrs Tsjajkovskíj, „Pathétique“.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Á efnisskrá tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld er hin þekkta sjötta sinfónía Pjotrs Tsjajkovskíj, „Pathétique“. Hin tvö verkin eru eftir finnsk tónskáld, „Rakastava“ eftir Jean Sibelius og sex ára gamalt samtímaverk, klarínettukonsertinn „D'om le vrai sens“ eftir Kaija Saariaho sem hinn finnski Kari Kriikku leikur. Stjórnandi á tónleikunum kemur einnig frá Finnlandi, Anna-Maria Helsing, en tónleikarnir eru hluti af opinberri hátíðardagskrá í tilefni 100 ára sjálfstæðisafmælis Finna. Sinfóníuhljómsveitin heiðrar Finna nú með þrennum tónleikum.

Leikræn tilþrif í konsertinum

Anna-Maria Helsing er sögð einn fremsti kvenstjórnandi Norðurlanda nú um stundir og hefur hún áður stjórnað Sinfóníuhljómsveitinni í Hörpu. Hún hefur verið áberandi í tónlistarhöllum Norðurlanda síðasta áratug og þá var hún um nokkurra ára skeið aðalstjórnandi sinfóníuhljómsveitarinnar í Oulu.

Kaija Saariaho, höfundur klarínettukonsertsins, er eitt þekktasta samtímatónskáld Finnlands. Tónlist hennar er sögð einkennast af dulúð og fíngerðum blæbrigðum og hefur hún verið kölluð „töframaður hljóðsins“. Konsertinn samdi hún innblásin af veggteppi frá miðöldum sem sýnir stúlku og einhyrning.

„Þetta verður í fyrsta skipti sem ég stjórna flutningi á þessu verki eftir Saariaho en ég hef hins vegar unnið áður með Kari Kriikku sem er frábær hljóðfæraleikari,“ sagði Helsing eftir æfingu í gær.

„Þetta er afar fínt verk og krefst leikrænna tilþrifa! Verkið er í fimm þáttum og hver þeirra er um eitt skynfæranna fimm. Einleikarinn gengur um meðan á flutningum stendur og er alls ekki á sviðinu allan tímann, hvað þá á sama stað á sviðinu. Sem dæmi er fyrsti þátturinn um heyrnina og tónleikagestir heyra þá í einleikaranum en sjá hann ekki. Annar þátturinn fjallar um sjónina og þá gengur einleikarinn um salinn meðal gestanna. Og verkið höfðar þannig til allra skynfæra viðstaddra.“

Það hlýtur að vera ekki bara krefjandi fyrir einleikarann að leika víða í Eldborgarsalnum heldur líka fyrir stjórnandann að fylgjast með Kriikku meðan á flutningi stendur?

„Það gerir kröfur til okkar allra en meðlimir hljómsveitarinnar hafa líka staðið sig afar vel á æfingum, því í verkinu eru staðir þar sem hann leikur dúetta og tríó og þeir sem leika með honum þurfa að standa upp. En umframt allt er tónlistin sjálf gríðarlega litrík og falle g.“

Eins og að aka bíl

Þegar rætt var áfram um samtímatónlist sagðist Helsing dást að því hvað listamenn í öllum Norðurlandanna stæðu sig vel í flutningi á nýrri tónlist. „Og hvað það varðar finnst mér að við séum betri en gömlu mið-evrópsku þjóðirnar. Þær búa vissulega yfir hefðinni og gera vel með arfleifð Mozarts, Beethovens, Brahms og þeirra, en tónleikagestir á Norðurlöndum eru hins vegar vanir því að á öllum sinfóníutónleikum séu líka flutt einhver ný tónverk. Eitthvað sem við höfum ekki heyrt fimmtíu sinnum áður. Mér finnst því að forverar mínir hafi staðið sig vel í því að flytja allskyns ný verk.“

Á efnisskránni er líka strengjaverk eftir Sibelius sem Helsing þekkir vel enda er hún líka fiðluleikari og hefur starfrækt strengjahljómsveit. Hún sagðist því hlæjandi hafa sterkar skoðanir á því hvernig þetta verk ætti að hljóma, rétt eins og mörg önnur finnsk tónverk. „Ég reyni því að bæta núna smávegis finnskum litum í vef Sinfóníuhljómsveitarinnar.“

Finnar hafa undanfarna áratugi dælt frá sér færum hljómsveitastjórum og Helsing þakkar þar góðum fyrirmyndum sem fyrst slógu í gegn á alþjóðlegum vettvangi, góðum tónlistarskólum og ekki síst því hve viljugar finnskar hljómsveitir hafa verið í að leyfa ungum stjórnendum að spreyta sig. „Þetta er eins og að aka bíl,“ sagði Helsing. „Það að fá ökuskírteini gerir okkur ekki að góðum bílsjórum, til þess þurfum við að æfa okkur. Hljómsveitarstjórar þurfa að æfa sig á raunverulegum hljómsveitum til að verða góðir. “