Stella Berglind Hálfdánardóttir fæddist í Heiðvangi við gamla Sogaveg í Reykjavík 16. mars 1943. Hún lést á heimili sínu 24. desember 2016.

Foreldrar hennar voru hjónin Aðalheiður Þórarinsdóttir, f. 17. ágúst 1907, d. 26. febrúar 1999, og Hálfdán Bjarnason, f. 28. ágúst 1903, d. 28. júní 1960. Stella var yngst þriggja systra: Erla, f. 19. mars 1931, d. 4. júlí 1983, og Kolbrún Lily, f. 14. september 1939. Allar fæddar og aldar upp í Reykjavík. Árið 1955 kynntist Stella lífsförunaut sínum, Viðari Guðmundssyni múrarameistara, f. 18. mars 1939. Foreldrar hans voru Kristín Magnúsdóttir og Guðmundur Magnússon sem bæði eru fallin frá. Stella og Viðar giftu sig 26. ágúst 1961 og eignuðust fimm börn. Þau eru: 1) Sólrún Viðarsdóttir, f. 17. janúar 1962, sambýlis maður hennar er Jón Wendel. Hún á þrjú börn af fyrra hjónabandi: a) Andrea Ösp, b) Berglind Ýr, eiginmaður hennar Eiríkur Nilsson og eiga þau soninn Alexander Orra, c) Birkir Örn. 2) Brynjar Viðarsson, f. 25. apríl 1964. Eiginkona hans er Gyða Björnsdóttir. Dætur hennar eru Elín Anna og Anna Margrét, saman eiga þau dótturina Birnu. 3) Agnes Viðarsdóttir, f. 28. júní 1966, eiginmaður hennar er Þórir Magnússon. Börn þeirra eru: a) Kolbeinn Viðar, eiginkona hans er Svanhvít Hekla Ólafsdóttir, eiga þau tvö börn: Anítu Nótt og Núma Tý. b) Svanur, sambýliskona hans er Katrín Rós Calmon. Dóttir hennar er Salka Cecile og saman eiga þau Jökul Hrafn og Uglu Rán. c) Anníe Mist, sambýlismaður hennar er Frederik Ægidius. 4) Hilmar Viðarsson, f. 29. desember 1970, sambýliskona hans er Erla Björgvinsdóttir. Hann á fjögur börn af fyrra hjónabandi; a) Hildur Sif, sambýlismaður hennar er Alexander Abenius. b) Daníel Kristinn, sambýliskona hans er Hrafnhildur Gunnarsdóttir. c) Sóley Ósk og d) Viðar Snær. 5) Heiða Viðarsdóttir, f. 26. október 1972, eiginmaður hennar er Kristján Kristjánsson. Börn þeirra eru Aron Bjarki og Birta Maren. Af fyrra sambandi á Heiða dótturina Kareni Ósk, sambýlismaður hennar er Guðmundur Þór Guðmundsson, sonur þeirra er Gunnar Zakarías,

Stella var húsmóðir lengst af en fór að vinna utan heimilis þegar barnauppeldinu lauk, fyrst hjá Heildversluninni H. Jónssyni, síðan hjá Múrlínu en síðast starfaði hún hjá Íslandspósti, eins lengi og heilsa hennar leyfði.

Útför Stellu Berglindar hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Elsku tengdamóðir mín, Stella Berglind Hálfdánardóttir, lést á aðfangadagsmorgun eftir baráttu við meingestinn mergæxlið.

Flestir kölluðu hana Guggu, sem kom til af því að föður hennar þótti einhvern tíma fara heldur mikið fyrir Stellu litlu og kallaði hana skrugguna sína. Skrugga í bjöguðu barnsmálinu varð Gugga.

Það er erfitt að ímynda sér að Gugga hafi nokkurn tíma verið fyrirferðarmikil eða hávaðasöm. Hún var þvert á móti hæglát, hæversk og ljúf og vildi láta lítið fyrir sér fara.

Hún bar djúpstæða virðingu fyrir náttúrunni og elskaði öll dýr – jafnvel mýsnar sem brutu sér leið inn í sumarbústaðinn fengu samúð og skilning.

Það var gott að leita ráða hjá Guggu. Reynslubrunnur hennar var djúpur og hún hafði einstakt lag á að leiðbeina og liðsinna.

Hún var skynsöm, þolinmóð, viljasterk og ákveðin, styrkleikar sem greiddu leið ungrar konu um oft erfiða tíma. En Gugga var líka jákvæð, heiðarleg og nákvæm og hafði fallega nærveru sem auðgaði líf okkar sem fengum að vera henni samferða.

Þau hjónin eignuðust fimm sérlega vel gerð börn og þeirra börn og barnabörn elska öll og heiðra minningu ömmu Guggu. Hringrás lífsins og gæsku heimsins er þannig viðhaldið í fallegum minningum og góðu fólki.

Heilbrigðiskerfið okkar hefur löngum byggt fremur á fagmennsku og mannkostum fólksins sem í því starfar en á aðstöðunni sem því er búið. Á síðustu árum lá Gugga oft á Landspítalanum við misgóðar aðstæður.

Hún var þó alltaf örugg í traustri meðferð Hlífar Steingrímsdóttur blóðlæknis og starfsfólks blóðlækningadeildar 11G. Fyrir fagmennsku þeirra og umhyggju verða aðstandendur ævinlega þakklátir.

Eftir að meðferð lauk fékk Gugga lengri gæðatíma heima en nokkur þorði að vona. Mörgu ber að þakka, en fyrst og fremst hennar jákvæða hugarfari ásamt ástúðlegri umhyggju eftirlifandi eiginmanns. Börn þeirra hjóna skiptust á að vera til staðar allan sólarhringinn síðustu mánuði.

Það ber vott um kærleikann og ástúðina sem Gugga veitti þeim í gegnum tíðina og þau vildu svo gjarnan endurgjalda. Einnig ber að þakka Karítas, með sérstöku þakklæti til Herdísar Jónasdóttur, sem ásamt heimahjúkrun Garðabæjar færðu Guggu hágæða heilbrigðisþjónustu heim síðustu mánuðina.

Framangreindir tryggðu að tengdamamma fékk mjúku lendinguna sem hún óskaði sér. Elsku Gugga lagði sig á aðfangadagsmorgun eftir hafragrautinn sem Viðar eldaði jafnan handa þeim og hún vaknaði ekki aftur. Mýkri verður vart lendingin í lok þessa lífs.

Það er dýrmætt að eiga gott fólk að og Gugga var með bestu konum sem ég hef um ævina kynnst.

Frá því að við Brynjar fórum að draga okkur saman tók hún einstæðri móður og ungum dætrum hennar opnum örmum og það vafðist aldrei fyrir henni að verða þeim „amma Gugga“ frá fyrstu tíð.

Elsku Gugga hafði þá þegar meiri trú á okkur Brynjari en við höfðum sjálf.

Slík var dæmigerð staðfesta hennar. Fyrir tiltrú hennar, stuðning, góðu ráð og væntumþykju verð ég eilíflega þakklát.

Með söknuði og þakklæti kveð ég elsku Guggu og votta tengdapabba og eftirlifandi ættingjum hennar mína dýpstu samúð.

Gyða Björnsdóttir.

Við minnumst elsku ömmu Guggu með hlýju í hjarta og þakklæti fyrir svo margar góðar stundir. Minningin um góða konu, frábæra fyrirmynd og fallega brosið hennar mun lifa með okkur að eilífu.

En hamingjan geymir þeim gullkransinn sinn,

sem gengur með brosið til síðustu stundar

fær síðan kvöldroða á koddann sinn inn,

kveður þar heiminn í sólskini og blundar.

(Þorsteinn Erlingsson)

Elín Anna, Anna Margrét

og Birna.

Elsku Gugga mín.

Takk fyrir allar góðu minningarnar.

Ég man þegar við leiddumst hönd í hönd til að kaupa brúðu handa mér í fimm ára afmælisgjöf. Ég man eftir horninu þeirra ömmu og Deddu á Háaleitisbrautinni. Ég man hvað það var öruggt skjól að koma í Brúnalandið í helgarfríum frá Bifröst. Ég man eftir öllum góðu móttökunum sem við Ívar fengum í Brúnalandinu í heimsóknum okkar frá Vestmannaeyjum.

Ég man eftir góðum stundum í Múlakoti. Ég man hve mér hitnaði um hjartarætur að horfa á ykkur Vidda dansa. Ég man eftir mörgum heimsóknum í bústaðinn ykkar. Ég man eftir mörgum skemmtilegum fjölskylduútilegum.

Ég man hvað þú tókst á veikindum þínum af miklu æðruleysi.

Ég man eftir síðasta faðmlaginu okkar.

Þín

Rósa.

Hún Stella okkar hefur nú kvatt þetta jarðlíf eftir erfið veikindi. Barðist hún hetjulega við óvininn en varð að lokum að lúta í lægra haldi.

Við kynntumst henni er hún gekk til liðs við Árnesingakórinn í Reykjavík. Þar fengum við góðan liðsmann.

Hún hafði fallega altrödd, var glaðlynd og góður félagi og ávallt tilbúin að veita lið þegar á þurfti að halda. Þau hjón voru dyggir stuðningsmenn kórsins, mættu á allar skemmtanir og fóru í ótal ferðalög okkar bæði innanlands og utan. Minnisstæðar eru fjölmargar haustferðir kórsins að Öndverðarnesi.

Þar voru töfraðar fram grillveislur miklar. Hitann og þungann af eldamennskunni báru þau hjón Viðar og Stella ásamt vinahjónum sínum Ingu Ósk og Össa.

Þessar stundir söngs og gleði eru okkur kórfélögum ógleymanlegur fjársjóður.

Við kveðjum Stellu með þökk fyrir allt. Viðari og fjölskyldunni allri sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Í skógarfylgsnum friður hlýr,

þar fuglinn litli býr.

Hann syngur frjáls á grænni grein

sín gleðiljóðin hrein.

Og sál vor hrifin hlustað fær

þá hörpu vorið slær

og hjartans angur hverfur, fer,

þar hvíld og friður er.

(Kjartan Ólafsson.)

Fyrir hönd Árnesingakórsins í Reykjavík,

Herdís Petrína Pálsdóttir,

Ingibjörg Valdimarsdóttir,

Þorgerður Guðfinnsdóttir.