Nokkuð harkaleg umræða hefur skapast á undanförnum misserum um hvort leggja beri sæstreng til Evrópu sem gera myndi íslenskum orkufyrirtækjum kleift að selja orku úr landi. Sitt sýnist hverjum í því og hefur slíkum áformum meðal annars verið mótmælt á þeim forsendum að það myndi draga úr möguleikum íslensks atvinnulífs til frekari uppbyggingar innan landsteinanna. Þórdís Kolbrún vill ekki taka afstöðu til þess hvort vænlegt sé að leggja sæstreng af þessu tagi en hún telur ástæðu til að kanna þann möguleika til hlítar.
„Ég er nú komin með gögn á borðið varðandi möguleikana í þessu efni og hef einnig óskað eftir kynningu á málinu. Ég get þó sagt að mér finnst ekki annað skynsamlegt en að skoða þennan möguleika alvarlega. Landsmenn greiða flestir sanngjarnt verð fyrir orku og það er jafnframt mikilvægt að svo verði áfram. Það er bæði skylda mín og annarra að skoða þá kosti sem til staðar eru í orkumálum og með hvaða hætti við getum skapað sem mestar tekjur af auðlindum landsins. Lengra vil ég þó ekki ganga að sinni og ég geng út frá því að fólk virði það við mig.“