Ólafur Helgi Kjartansson
Ólafur Helgi Kjartansson
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Tollverðir á Keflavíkurflugvelli stöðvuðu fimmtán burðardýr fíkniefna á nýliðnu ári, 2016.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Tollverðir á Keflavíkurflugvelli stöðvuðu fimmtán burðardýr fíkniefna á nýliðnu ári, 2016. Lögreglan á Suðurnesjum hafði með höndum rannsókn málanna og er flestum þeirra lokið en aðrar á lokastigi, samkvæmt því sem fram kemur í frétt frá Tollstjóra.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að haldlagt magn fíkniefna á Keflavíkurflugvelli í fyrra, um 6,5 kíló af kókaíni og rúm 5,6 kíló af hassi, hefði verið svipað magn og haldlagt var af tollvörðum á Keflavíkurflugvelli árið 2015.

„Á síðustu tveimur árum höfum við lagt hald á talsvert meira af fíkniefnum en árið 2014. Það ár sker sig raunar úr varðandi hversu lítið magn af fíkniefnum kom til kasta lögreglu,“ sagði Ólafur Helgi. Hann segir þessi mál vera unnin hratt og örugglega hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Átti að fara til Grænlands

Fram kemur í frétt Tollstjóra að mest hafi verið um kókaín sem haldlagt var hjá burðardýrunum, eða rúmlega 6,5 kíló. Mesta magn sem einn aðili hafi haft innvortis hafi verið tæpt kíló. Þá hafi verið haldlagt umtalsvert magn af hassi, eða rúm 5,4 kíló samtals. Það hafi fundist í farangri einstaklinga sem hafi ætlað að smygla því til Grænlands. Loks hafi verið haldlögð tæp 240 grömm af e-dufti og 13 grömm af metamfetamíni. Loks minnir Tollstjóri á fíkniefnasímann 800-5005, en í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Sömuleiðis má koma ábendingum um smygl inn á símsvara 552-8030 hjá embætti Tollstjóra.