Anna Hallfríður Sveinbjörnsdóttir fæddist á Á í Unadal, Skagafirði, 28. ágúst 1921. Hún lést á Hrafnistu í Reykjanesbæ 9. janúar 2017.
Foreldrar hennar voru Sveinbjörn Sigurður Sveinbjörnsson, f. 27. maí 1893, d. 27. júlí 1990, og Jóhanna Símonardóttir, f. 21. október 1899, d. 11. desember 1988.
Systkini hennar eru Marín Sveinbjörnsdóttir, f. 1923, Alfreð Elías Sveinbjörnsson, f. 1924, Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir, f. 1927, Sigurður Bjarni Sveinbjörnsson, f. 1935, d. 2002, Guðrún Símonar Sveinbjörnsdóttir, f. 1937, og Ásdís Hulda Sveinbjörnsdóttir, f. 1940.
Fyrri maður Önnu var Haraldur Kjartansson, f. 10. september 1906, d. 7. ágúst 1948. Sonur þeirra var Snorri Njorðfjörð, f. 9. mars 1945, d. 23. febrúar 2002.
Seinni maður Önnu var Hannes Arnórsson, f. 8. febrúar 1899, d. 11. desember 1983, þau áttu þrjú börn. 1) Sigríður Hvanndal Hannesdóttir, f. 23. ágúst 1954, eiginmaður hennar er Ágúst Heiðar Borgþórsson. Börn Sigríðar með Einari Júlíussyni eru Maríanna, Rúna Björk og Júlía Hvanndal. 2) Jóhann Sveinbjörn Hannesson, f. 14. október 1956, d. 20. mars 1986, hann átti tvo syni með Sigurrós Magnúsdóttur, Hannes og Halldór. 3) Matthías Hannesson, f. 11. desember 1961, d. 23. febrúar 2002, hann átti tvær dætur með Ingveldi Magnúsdóttur, Berglindi og Hrafnhildi.
Hannes átti fyrir þrjú börn 1) Magnús Hvanndal Hannesson, f. 1929, d. 2000, 2) Erna Ragnheiður Hvanndal Hannesdóttir, f. 1933, og 3) Arnór Hvanndal Hannesson, f. 1940, d. 2011.
Eftir skólagöngu á Hofsósi fór Anna í vist fyrst á Siglufirði og síðan á Hellissandi en þar kynntist hún Haraldi, fyrri eiginmanni sínum. Frá Hellissandi fór Anna á Laugarvatn og nam við Laugarvatnsskóla 1942-1943. Anna giftist Haraldi 3.11. 1946 en hann drukknaði 1948.
Anna fór í Ljósmæðraskóla Íslands 1950 og útskrifaðist sem ljósmóðir 30.9. 1952. Eftir það var hún ráðin sem ljósmóðir í Gerða- og Miðnesumdæmi. Stuttu síðar var hún ráðin sem símavörður hjá Pósti og síma í Sandgerði, þannig að hún sinnti tveimur störfum samtímis.
Eftir að Anna varð 67 ára og hætti sem ríkisstarfsmaður réði hún sig á Dvalarheimilið Grund, hún byrjaði 1.12. 1987 og hætti 13.7. 2004, þá 83 ára. Anna er næstelsti starfsmaðurinn sem hefur unnið á Grund.
Útför Önnu fer fram frá Safnaðarheimilinu Sandgerði í dag, 19. janúar 2017, kl. 13.
Það lætur stundum hátt í okkar heimi,
hans ásýnd reynist alltaf margvísleg.
Samt fer það lágt er góð og gömul kona,
gengur hljóð sinn hinsta æviveg.
En dauðinn hann er ein af línum
lífsins,
sú liggur gegnum daga okkar hér.
Við dánarfregn það sest að okkur
sorgin,
sem fylgir okkur hver sem leiðin er.
Samt huggumst við af því að látinn
lifir,
það leynist ekki vafi neinn um það.
Hann sem ræður himni bæði og jörðu,
hefur búið okkur dvalarstað.
Þegar komið er að leiðarlokum,
við lítum allt þitt góða æviskeið.
Anna mín, við þökkum þér af hjarta,
þú stráðir hlýju og birtu á okkar leið.
(Hjalti Gíslason)
Marín (Maja systir)
og fjölskylda.