Hornið Bjarki Már Elísson hefur skorað þrettán mörk á HM.
Hornið Bjarki Már Elísson hefur skorað þrettán mörk á HM. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Metz Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is ,,Það var erfitt að festa svefn eftir leikinn við Angóla þar sem hann var það seint, þannig að maður er aðeins þreyttur.

Í Metz

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

,,Það var erfitt að festa svefn eftir leikinn við Angóla þar sem hann var það seint, þannig að maður er aðeins þreyttur. Það var sem betur fer ekki leikur í dag og gott að fá að hlaða batteríin vel fyrir þennan úrslitaleik á móti Makedóníu,“ sagði hornamaðurinn Bjarki Már Elísson við Morgunblaðið í gær.

Bjarki og samherjar hans í íslenska landsliðinu mæta Makedóníumönnum í kvöld og eftir hann ræðst hvort Íslendingar komast áfram í 16-liða úrslitin eða þurfa að sætta sig við það erfiða hlutskipti að fara í keppnina um Forsetabikarinn þar sem tvö neðstu liðin í riðlunum fjórum leika.

,,Nú erum við bara einbeittir á leikinn við Makedóníumenn og erum að kortleggja hvernig þeir spila og hvernig við ætlum að herja á þá. Mér finnst við eiga góða möguleika og það er bara ekkert annað í boði en sigur og svo sjáum við hvað gerist í framhaldinu,“ sagði Bjarki Már.

Auðvitað langar mig að taka meiri þátt

Bjarki hefur skorað 13 mörk á mótinu en aðeins spilað einn heilan leik, gegn Slóvenum þar sem hann skoraði sjö mörk, og seinni hálfleikinn á móti Angóla þar sem hann skoraði sex mörk.

,,Jú, jú ég er alveg sáttur við hvernig ég hef nýtt mitt tækifæri. Maður er samt alltaf að reyna að gera betur. Maður hugsar oft meira um þá hluti sem maður gerir rangt heldur en þá góðu. Auðvitað langar mig til þess að taka meiri þátt í leikjunum því þetta er svo gaman,“ sagði Bjarki Már.

Það getur verið erfitt hlutskipti fyrir leikmann að vera varamaður fyrir landsliðsfyrirliðann, Guðjón Val Sigurðsson, enda einstakur leikmaður þar á ferð. Spurður út í það sagði Bjarki Már;

Erum hér saman sem eitt lið

,,Það segir sig sjálft en ég fékk að spila allan leikinn við Slóveníu og hálfan leik á móti Angóla. Ég náði í þessum leikjum að skora einhver mörk,“ sagði Bjarki Már.

Blaðamaður gaukar að Bjarka að það hljóti að styttast í að Guðjón fari að draga í land og Bjarki svarar; ,,Maður veit aldrei með hann. Ég verð alla vega klár þegar að því kemur. Það getur vel verið að ég verði í þeirri stöðu í leiknum við Makedóníu að rétta honum vatnið og peppa strákana af bekknum eða verði inni á vellinum. Ég tek við því hlutverki sem ég fæ. Við erum saman hérna sem eitt lið og ætlum að fara í sextán liða úrslitin sem lið,“ sagði Bjarki.

Er Guðjón Valur þín fyrirmynd í handboltanum?

,,Já, að mörgu leyti. Hann er frábær atvinnumaður. Hvernig hann nálgast leikinn og allt í kringum hann er algjörlega til fyrirmyndar. Ég vil meina að ég sé ekki alveg eins leikmaður og hann. En jú, ég held að hann sé fyrirmynd okkur allra í liðinu,“ segir Bjarki Már.

Ánægður í Berlín

Bjarki Már er á sínu öðru ári hjá þýska 1. deildarliðinu Füchse Berlin og framlengdi samning sinn við félagið í síðasta mánuði og er bundinn því fram í júní 2019. ,,Ég er virkilega ánægður í Berlín og það eru spennandi tímar framundan. Það var eftirsjá í Erlingi Richardssyni úr þjálfarastarfinu. Það var leiðindamál og sérstök ákvörðun sem var tekin á þessum tímapunkti. Það er lítið sem ég get sagt meira. Ég er að vinna fyrir þetta félag og er einbeittur að vera hjá liðinu næstu árin,“ sagði Bjarki.