[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLÍFINU Skapti Hallgrímsson Akureyri Bryndís Rún Hansen sundkona úr Óðni og Viktor Samúelsson kraftlyftingamaður úr KFA voru kjörin íþróttakona og íþróttakarl Akureyrar fyrir árið 2016. Kjöri þeirra var lýst í hófi í menningarhúsinu Hofi í gær.

ÚR BÆJARLÍFINU

Skapti Hallgrímsson

Akureyri

Bryndís Rún Hansen sundkona úr Óðni og Viktor Samúelsson kraftlyftingamaður úr KFA voru kjörin íþróttakona og íþróttakarl Akureyrar fyrir árið 2016. Kjöri þeirra var lýst í hófi í menningarhúsinu Hofi í gær.

Nú var í fyrsta skipti kjörinn besti íþróttamaður bæjarins af hvoru kyni en aðeins einn hefur hreppt hnossið til þessa.

Karlpeningurinn ætti að líklega gleðjast yfir breytingunni því kona varð fyrir valinu níu ár í röð, frá 2006 til 2014!

Viktor Samúelsson braut kvennaveldið á bak aftur þegar hann var kjörinn íþróttamaður Akureyrar 2015 fyrir sléttu ári og er nú íþróttakarl ársins 2016. Á ferlinum hefur Viktor slegið 211 Íslandsmet og á enn 34. Þá á Viktor enn fimm af Norðurlandametunum sjö sem hann hefur sett í gegnum tíðina.

Í fyrra vann Viktor til gullverðlauna í bekkpressu á Evrópumóti 23 ára og yngri í 120 kg þyngdarflokki, fékk silfur í sömu grein á heimsmeistaramóti þessa aldursflokks og gerði sér síðan lítið fyrir og varð í sjötta sæti á heimsmeistaramóti fullorðinna. Hann er nú í áttunda sæti á heimslistanum í sínum þyngdarflokki. Besti árangur Viktors í fyrra var þessi: 375 kg í hnébeygju, 315 kg í bekkpressu og 322,5 kg í réttstöðulyftu.

Bryndís Rún , sem varð íþróttamaður Akureyrar þrjú ár í röð, 2009-2011, og nú hlutskörpust í keppni við kynsystur sínar, setti í fyrra eitt Íslandsmet og varð Íslandsmeistari í fjórum greinum; 50 m skriðsundi, 100 m skriðsundi, 50 m flugsundi og 100 m flugsundi. Hún synti undir þremur B-lágmörkum fyrir Ólympíuleikana í Ríó en komst þó ekki á leikana.

Bryndís komst í undanúrslit í 50 m flugsundi á Evrópumeistaramótinu í 50 m laug í London, setti tvö Íslandsmet á heimsmeistaramótinu í 25 m laug í Kanada og komst enn í undanúrslit þegar hún stórbætti Íslandsmetið í 50 m flugsundi.

Þá er vert að geta þess að Bryndís Rún var í boðsundssveit Íslands í 4x100 m fjórsundi á báðum áðurnefndum mótum. Sveitin varð í sjötta sæti í London og er sem stendur í 10. sæti á Evrópulista og 16. sæti á heimslista.

Bryndís keppir fyrir Óðin hér heima en stundar nám við Hawaii-háskóla í Manoa og keppir þar með skólaliðinu í 1. deild bandarísku háskólakeppninnar.

Tryggvi Snær Hlinason, körfuboltamaður úr Þór, varð annar í karlakjörinu, fáeinum stigum á eftir Viktori, og í þriðja sæti Valþór Ingi Karlsson, blakari úr KA. Hafdís Sigurðardóttir, frjálsíþróttakona úr UFA, varð önnur í kvennakjörinu og þriðja varð María Sigurðardóttir úr Skíðafélagi Akureyrar.