Neytendahegðun Ný könnun Eurobarometer sýnir að 80% evrópskra neytenda leggja ríka áherslu á að neyta fisks sem kemur frá þeirra landshluta, frá sama landi eða frá öðru Evrópuríki.

Neytendahegðun Ný könnun Eurobarometer sýnir að 80% evrópskra neytenda leggja ríka áherslu á að neyta fisks sem kemur frá þeirra landshluta, frá sama landi eða frá öðru Evrópuríki. Leiddi könnunin í ljós að meirihluti Evrópubúa kaupir fisk sinn í stórmörkuðum og metur fiskinn fyrst eftir útliti, þá verði og loks upprunalandi.

Kom einnig fram í rannsókninni að 42% Evrópubúa neyttu sjávarafurða einu sinnu í viku eða oftar en 72% höfðu fisk á borðum heima fyrir að minnsta kosti einu sinni í mánuði. Hins vegar panta aðeins 32% neytenda fisk á veitingastað mánaðarlega eða oftar.

Gáfu 68% svarenda til kynna að þeir myndu neyta fisks oftar ef verðið væri lægra. Þá sögðu sex af hverjum tíu svarendum að þeir hefðu áhuga á að prófa ný matvæli gerð úr fiski og reyna nýjar fisktegundir.

Fiskneysla var minni í löndum sem ekki hafa aðgengi að sjó. Sem dæmi neyta 26% Ungverja fisks í mánuði hverjum en 93% Spánverja. ai@mbl.is