Um áramót samþykkti fráfarandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra tillögur ráðgjafanefndar Orkusjóðs um veitingu styrkja til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla. Alls bárust 33 umsóknir, upp á 887 milljónir króna.

Um áramót samþykkti fráfarandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra tillögur ráðgjafanefndar Orkusjóðs um veitingu styrkja til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla. Alls bárust 33 umsóknir, upp á 887 milljónir króna. Til ráðstöfunar var 201 milljón sem greidd verður út á árabilinu 2016 til 2018. Sextán verkefni urðu fyrir valinu og segir Orkusjóður að hægt verði á grunni þeirra að byggja upp heildstætt net hleðslustöðva fyrir flesta landsmenn og þannig stigið stórt skref í rafbílavæðingu Íslands. Er þar miðað við uppbyggingu 42 hraðhleðslustöðva og 63 hefðbundinna stöðva.

Ekki skal efast um að markmiðið með úthlutun styrkjanna sé göfugt og sannarlega munu eigendur rafbíla, vítt og breitt um landið, fagna þessum áformum. Hins vegar er ekki ástæða til að halda að með þessum aðgerðum verði sívaxandi þörf fyrir innviði á þessu sviði mætt að fullu. Nægir þar að líta til reynslu nágrannaþjóðanna en líkt og fram kom í Morgunblaðinu fyrr í vikunni eru Noregur, Ísland og Svíþjóð leiðandi meðal Evrópuríkja þegar litið er til hlutfalls rafbíla í innflutningi fólksbíla.

Í Noregi eru nú 2.025 hleðslustöðvar og 7.747 stæði þar sem almenningur hefur aðgengi að hleðslu. Þar af eru 1.323 hraðhleðslustöðvar. Í Svíþjóð eru hleðslustöðvarnar 737 og stæðin 2.598. Hraðhleðslustöðvarnar eru 601. Vissulega eru íbúar Noregs og Svíþjóðar mun fleiri en Íslands og landflæmið einnig. Tölurnar vitna þó um að þjóðirnar tvær eru komnar langt á undan þeirri íslensku í þessum efnum, ekki síst þegar litið er til þess að fyrrnefndri uppbyggingu hérlendis er ætlað að ljúka á næsta ári.

Gera má ráð fyrir því að þegar árið 2018 verður á enda runnið, verði kröfur um enn frekari uppbyggingu innviða orðin hávær og innflutningur raf- og tengiltvinnbíla orðinn mun umfangsmeiri en nú er. Vegna náttúrugæða hafa Íslendingar einstakt tækifæri til að nýta sér hin hröðu orkuskipti en til þess mættu menn spýta í lófana – þó ekki sé skynsamlegt að gera það rétt í þann mund sem stungið er í samband.