Grétar Helgason fæddist 14. janúar 1958. Hann lést 24. desember 2016.
Grétar var jarðsunginn 30. desember 2016.
Elsku pabbi.
Það er erfitt að koma hér orðum að. Óteljandi minningar um það sem áður var hafa hertekið hugann síðustu ár og sérstaklega undanfarna daga. Hvernig þú nostraðir við hlutina, pakkaðir inn gjöfunum, skreyttir bréfin, skarst ávextina, þreifst bílinn, pírðir augun þegar þú hlóst en svona gæti ég lengi haldið áfram. Það eru þessi litlu smáatriði sem einkenna þig. Áreynslulaust tókst þér að skapa persónueinkenni sem allir elska. Þú varst elskaður og dáður af öllum sem á vegi þínum urðu.
Þrátt fyrir að síðustu ár hafi litast af hrakandi heilsu þinni þá gerðir þú oftar en ekki lítið úr þessu öllu með þinni einstöku hógværð og sagðir hvað það væru ótrúlega margir sem hefðu það verra en þú. Það er auðvitað dagsatt og setur smæð okkar á örskotsstundu í samhengi í þessum stóra heimi. Það breytir þó ekki nístandi sársaukanum sem fylgir því að hafa þig ekki lengur hér.
Þetta líf er óútreiknanlegt, erfitt og ósanngjarnt en það er líka ótrúlega fallegt og gefandi. Ég vil trúa því að núna bíði þín eitthvað stórkostlegt. Því aðeins þannig vil ég takast á við það sem framundan er.
Elsku pabbi, við sjáumst.
Þín,
Helga Lára.
Þeir sem ekki þekkja til verða að vita að kraftþjálfun fer oftast þannig fram að íþróttamaðurinn tekur mestu æfingaþyngd dagsins nokkrar endurtekningar, hvílir sig síðan í nokkrar mínútur – og tekur síðan næstu umferð. Í þessum þjálfunarpásum gefst ágætur tími til þess að ræða áhugamálin, sem eins og ungum mönnum sæmir snerust ekki eingöngu um æfingakerfi heldur hið ljósa man og önnur litbrigði. Bindast kraftæfingafélagar þá oft traustum vináttuböndum er halda.
Grétar æfði best bekkpressu og varð mjög sterkur. Hann varð herðabreiður og með mikinn og stæltan brjóstkassa sem ekki leyndist þegar hann bar af í fjölmenni.
Minnisstætt er þegar Grétar bauð okkur æfingafélögunum til mikillar grillveislu í fögrum garði við heimili foreldra hans – því hann var góður gestgjafi.
Gamla Þvottalaugahúsið var brotið í smátt og sér þess fá merki nema í minningu okkar sem þar æfðum sem sjáum fyrir okkur víkingabæ með drekahöfuð á stafni. Tvístraðist æfingahópurinn og hef ég fæsta æfingafélaga hitt síðan.
Grétar hitti ég þó oft á förnum vegi eins og þegar hann fór um Laugaveginn með barnavagn eða þegar hann hjólaði um hverfið þar sem ég bý í Kópavogi. Það var ekki oft verið að orðlengja umræður enda byggðum við kynni okkar á þeim dýrmætasta auði sem til er – æskuminningasjóðnum.
Þegar ég hóf lyftingaæfingar í Ásgarði í Garðabæ, þar sem Grétar starfaði, hittumst við oftar og einkum þegar hann var á eftirlitsferðum um húsið og í kraftþjálfunarsal í kjallara Ásgarðs. „Það er bara svona,“ sagði hann gjarnan og brosti. „Já“, svaraði ég, „það eru leifar af fornum kröftum.“
Okkar síðustu kynni voru eftir að hann hafði haldið til Danmerkur til geislameðferðar sem því miður tókst ekki og átti hann eftir frekari læknismeðferð. Grétar var æðrulaus eins og fornkappi í víkingasögum Íslendinga – þegar við skildum í þetta síðasta sinn. Og það stafaði af honum birtu og mannlegri hlýju – eins og alltaf.
Um Grétar Helgason gilda eftirmæli þau er Einar Benediktsson orti um Egil sterka:
Og öld eftir öld grúfðu norðursins nætur
í niðdimmum rjáfrum, þar vöggubörn sváfu,
og önduðu hörku í hverja sin,
...
Halldór Eiríkur S.
Jónhildarson (Donni).